„Íslendingar og Færeyingar ættu að passa sig“

Struan Stevenson, Evrópuþingmaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins.
Struan Stevenson, Evrópuþingmaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins.

„Það er augljóslega tímaeyðsla að reyna að semja við þá og það er kominn tími til þess að beita refsiaðgerðum.“ Þetta er haft eftir skoska Evrópuþingmanninum Struan Stevenson á fréttavefnum Fishupdate.com en hann er ennfremur varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins.

Eins og mbl.is hefur fjallað um lauk fundi strandríkja í London síðastliðinn miðvikudag án þess að samkomulag næðist í makríldeilunni. Einnig hefur verið fjallað um það að Evrópuþingið samþykkti í september reglugerð sem heimilar Evrópusambandinu að beita refsiaðgerðum gegn ríkjum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar á fiskstofnum sem þau deila með sambandinu.

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur núna þetta vopn í fórum sínum og það er kominn tími til þess að senda fram stórskotaliðið og sýna þessum tveimur ræningjaþjóðum að við munum ekki umbera ósjálfbæra rányrkju á deilistofnum með þessum hætti,“ segir Stevenson einnig í fréttinni.

Ennfremur segir hann að Íslendingar telji Evrópusambandið vera hrætt við að beita refsiaðgerðum gegn innflutningi til sambandsins á íslenskum þorski þar sem það hefði slæm áhrif á bresk fiskvinnslufyrirtæki sem eru háð hráefni frá Íslandi.

„En ég hef talað við norska sjávarútvegsráðherrann sem hefur fullvissað mig um að Noregur búi yfir mörgum þúsundum tonna af þorski sem sé til staðar og að þeir væru meira en reiðubúnir að fylla það skarð sem bann við íslenskum þorski ylli. Íslendingar og Færeyingar ættu að passa sig því þeir gætu tapað markaðshlutdeild til Noregs varanlega ef Evrópusambandið grípur til refsiaðgerða,“ segir Stevenson að lokum.

Frétt Fishupdate.com

mbl.is