Enginn fundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga í dag

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Ernir

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að enginn fundur verði í dag á milli fulltrúa hjúkrunarfræðinga og Landspítalans um kjaramál. „Nei, það er einhver vitleysa sem er í gangi,“ segir Björn spurður út í fundinn.

Aðgerðahópur hjúkrunarfræðinga sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem boðað var til mótmæla kl. 16 í dag þegar fulltrúar samninganefnda Landspítalans og hjúkrunarfræðinga áttu að hittast á fundi, samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningunni.

Björn segir í samtali við mbl.is, að samstarfsnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi óskað eftir fundi með sér og velferðarráðherra. Hann segir að í síðustu viku hafi menn stefnt að því að halda fundinn kl. 16 í dag. „Vegna tímaleysis ráðherra þá verður þessi fundur ekki í dag,“ segir Björn sem bætir við að fundinn verði nýr tími til að ræða málin.

„Þannig að þessi fundur verður ekkert í dag og þetta er einhver misskilningur,“ segir Björn, sem tekur fram að ekki liggi fyrir hvert fundarefnið eigi að vera, en hann segist gera ráð fyrir því að menn vilji ræða kjarabætur hjúkrunarfræðinga.

Hann furðar sig jafnframt á því að menn skuli vera tala um einhvern leynilegan fundarstað. „Maður verður bara hissa á því að fólk skuli láta hafa sig út í svona,“ segir hann og bætir við að allt liggi uppi á borðum í þessum efnum.

Engar kjarabætur í stofnanasamningum

„Hjúkrunarfræðingar hafa gildan kjarasamning. Það hefur ekki verið endurnýjaður stofnanasamningur af því að þeir hafa ekki viljað gera það nema að fá kjarabætur. Og það hafa hingað til ekki verið neinar kjarabætur í stofnanasamningum, sem þýðir það að Landspítalinn fær engan pening frá ríkinu eða fjármálaráðuneytinu til að ganga frá þessu. Þess vegna hefur ekki verið hægt að ganga frá stofnanasamningi,“ segir Björn.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá aðgerðahópi hjúkrunarfræðinga hafa um 190 hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum. Þeir taka aftur á móti fram að þessar tölur séu óstaðfestar. Þeir segja að stórt hlutfall þessara hjúkrunarfræðinga séu hjúkrunarfræðingar með sérmenntun, s.s. skurðhjúkrunarfræðingar, svæfingarhjúkrunarfræðingar, gjörgæsluhjúkrunarfræðingar og barnahjúkrunarfræðingar ásamt almennum hjúkrunarfræðingum.

Spurður út í uppsagnirnar segir Björn að eitthvað hafi verið um uppsagnir meðal hjúkrunarfræðinga fyrir síðustu helgi. „Við erum bara að safna saman gögnum, kíkja á þetta og sjá hver málin verða og hvert framhaldið verður í samráði við ríkið, það er að segja fjármálaráðuneytið og velferðarráðuneytið,“ segir Björn sem tjáir sig ekki nánar um uppsagnirnar að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert