Greiða ekki aukajólabónus

Hluti af athafnasvæði HB Granda á Vopnafirði.
Hluti af athafnasvæði HB Granda á Vopnafirði. Ljósmynd/HB Grandi

Forstjóri HB Granda, Vilhjálmur Vilhjálmsson, segir að ekki standi til að greiða starfsfólki fyrirtækisins aukajólabónus líkt og Samherji og Gjögur gera nú í desember.

Að sögn Vilhjálms virðir fyrirtækið kjarasamninga og greiðir laun í samræmi við þá. „Við teljum stöðu sjávarútvegsins almennt ekki gefa tilefni til þess þó svo að einstök fyrirtæki geti gert það,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Hagnaður HB Granda nam 37,3 milljónum evra, rúmum sex milljörðum króna, á síðasta ári samanborið við 7,8 milljónir evra árið á undan.

Á vef Verkalýðsfélagsins Akraness er skorað á HB Granda að fara sömu leið og Samherji í þessum málum:

„Það er óhætt að segja að starfsmenn Samherja geti glaðst um þessar mundir í ljósi þess að fyrirtækið hefur nú tilkynnt starfsmönnum að það ætli enn eitt árið að greiða þeim jólaumbun sem nemur tæpum 400.000 krónum. Samherji hefur verið iðinn við að láta starfsmenn sína njóta góðrar afkomu fyrirtækisins á liðnum árum og hefur fyrirtækið nú greitt hverjum starfsmanni 810.000 krónur umfram þá kjarasamninga sem undirritaðir voru í maí í fyrra. Á síðustu fjórum árum hefur fyrirtækið greitt hverjum starfsmanni upp undir 1,5 milljónir umfram gildandi kjarasamninga.

Samherji er ekki eina fyrirtækið sem hefur látið starfsmenn sína njóta góðrar afkomu í sjávarútvegi, en fyrirtæki eins og Eskja, Vinnslustöðin, Brim og fleiri hafa gert slíkt hið sama.

En því miður hefur eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi, HB Grandi sem er m.a. með starfsstöð hér á Akranesi, ekki séð sér fært að greiða starfsmönnum sínum slíkar greiðslur þrátt fyrir afar góða afkomu undanfarin ár vegna hagstæðs gengis útflutningsfyrirtækja.

Fyrirtækið hefur skilað milljörðum í hagnað og greitt hundruð milljóna í arðgreiðslur til eigenda. Á þeirri forsendu er það þyngra en tárum taki að fyrirtækið hafi hingað til ekki verið tilbúið til að umbuna sínum starfsmönnum líkt og Samherji hefur gert ár eftir ár,“ segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina