„Við bíðum bara eftir Vilborgu“

Vilborg Arna Gissurardóttir á göngu.
Vilborg Arna Gissurardóttir á göngu. mbl.is

„Við bíðum bara eftir Vilborgu,“ segir Elín Sveinsdóttir, sem hefur tekið þátt í að undirbúa ferð Vilborgar Örnu Gissurardóttir á suðurpólinn. Hún segir engar fréttir hafi borist af Vilborgu í dag, en hún sagði í gær að hún stefndi að því að klára ferðina og komast á pólinn í dag.

Áætluð gönguleið Vilborgar í dag er um 18 km, en hún hefur verið að ganga að jafnaði um 18-22 km á dag. Elín segir ekki vitað hvenær Vilborg lagði af stað í morgun og hvernig henni hafi miðað síðustu kílómetrana. Hún segir að færið sé erfitt og það kunni að hafa tafið fyrir henni. Upphaflega var áætlað að hún myndi klára gönguna kl. 18.

Vilborg hefur jafnan kveikt á símanum sínum þegar hún er búin með dagleiðina og þannig ætlar hún líka að hafa það í dag.

Samkvæmt veðurstöð á suðurpólnum er 26 stiga frost á pólnum í dag, en ef tekið er tillit til vindkælingar er frostið um 34 stig.

mbl.is