Vilborg yfirgefur suðurpólinn

Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir mbl.is

Vilborg Arna Gissurardóttir var sótt í gær á suðurpólinn og er núna í Union Glacier Camp sem eru tjaldbúðir starfræktar af ALE (Antarctic Logistics & Expeditions).

Flugið tók um fimm og hálfan tíma og varð hún samferða nokkrum skemmtilegum strákum frá Suður-Afríku sem höfðu nýlokið við 10 daga leiðangur á pólinn. Þau fengu öll veglegar móttökur þegar þau komu í tjaldbúðirnar og beið þeirra hátíðarkvöldverður og kampavín.

Veðrið hefur verið frekar slæmt og voru þau mjög heppin að það opnaðist örlítill veðurgluggi á suðurpólnum, þannig að hægt væri að fljúga með þau yfir í Union Glacier-búðirnar. Ef þau hefðu ekki komist í gær hefðu þau jafnvel getað orðið veðurteppt á pólnum í einhverja daga sökum veðurs.

Í frétt frá Vilborgu segir að hún sé hress og kát og gott í henni hljóðið. Hún bíður þess nú að komast með næsta flugi yfir til Chile.

Vilborg lauk á fimmtudaginn ferð sinni á suðurpólinn. Hún gekk 1140 km á skíðum, en það tók hana 60 daga að komast á pólinn. Vilborg er fyrsti Íslendingurinn í sögunni til að ganga á suðurpólinn ein síns liðs.

mbl.is