Flogið á Sauðárkrók á ný

Áætlunarflug til Sauðárkróks hefst á ný nk. þriðjudag.
Áætlunarflug til Sauðárkróks hefst á ný nk. þriðjudag. mbl.is/mats.is

Skrifað var undir samninga í dag milli Isavia og Air Arctic (Eyjaflugs) um áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Rúmt ár er síðan Ernir hætti flugi á þessari leið og síðan þá hafa heimamenn unnið að því að koma áætlunarflugi á aftur, með aðstoð innanríkisráðuneytisins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns byggðaráðs Skagafjarðar, verður flogið fimm daga vikunnar allt árið, alls sjö flug á viku. Samið var um flugið til eins árs. Drög að samningi milli Air Arctic og sveitarfélagsins liggja fyrir og hafa verið kynnt í byggðaráði. Á Stefán Vagn von á að sá samningur verði samþykktur einróma.

Stefnt er að fyrsta áætlunarfluginu nk. þriðjudag. Fram að því verður Alexandersflugvöllur undirbúinn hvað tækjabúnað varðar.

„Þetta er mjög jákvætt skref sem við fögnum vel og innilega. Nú getum við aftur boðið upp á þessa þjónustu fyrir íbúa og gesti svæðisins og flugið gerir Norðurland vestra samkeppnishæfara við aðra landshluta,“ segir Stefán Vagn, sem einnig er mjög ánægður með stuðning Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við málið, hann eigi miklar þakkir skildar.

Flogið verður með 9 sæta flugvél. Á þriðjudögum og fimmtudögum verður flogið tvisvar á dag á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur en einu sinni á mánudögum, föstudögum og sunnudögum. Ekki verður flogið á miðvikudögum og laugardögum.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar.
Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar. mbl.is
mbl.is