Vilborg væntanleg heim í kvöld

Vilborg Arna Gissurardóttir á suðurpólnum.
Vilborg Arna Gissurardóttir á suðurpólnum.

Suðurpólsfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir kemur heim til Íslands seint í kvöld eftir tæplega þriggja mánaða leiðangur sinn á syðsta punkt jarðar. 

Vilborg, sem komst á suðurpólinn hinn 17. janúar eftir 60 daga göngu,  hefur síðustu daga dvalið í suðurhluta Síle, Punkta Arenas.

Á meðan á göngu Vilborgar stóð safnaði hún áheitum fyrir Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans. Nú  hafa safnast rúmlega 11 milljónir með beinum framlögum fólks og fyrirtækja. Enn má leggja söfnuninni lið með því að hringja í símanúmerið 908 1515 og dragast þá 1.500 kr. af símreikningi eða með frjálsum framlögum á www.lifsspor.is. Einnig má millifæra inn á reikning Lífs styrktarfélags, 515 14 411000, kt. 501209 1040, segir í fréttatilkynningu.

mbl.is