Tilviljun hvernig Icesave-málið þróaðist

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.

Það var gæfa Íslands að atburðarrásin varð með þeim hætti sem hún varð í Icesave-málinu fyrir tilviljun og í fullkominni óvissu. Þetta sagði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í umræðum um störf þingsins í morgun.

Rifjaði Árni upp að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið í kjölfar bankahrunsins að leita samninga í Icesave-deilunni en því hafi alltaf verið haldið til haga að lagaleg óvissa væri í málinu. Viðleitni stjórnvalda til að ná samningum hafi verið forsenda endurreisnar Íslands og haldið landinu á floti. Annars hefði verið hætta á að spár um gjaldþrot ríkisins rættust.

Þingmenn Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Ásmundur Einar Daðason, gagnrýndu ummæli Árna, um að atburðarrásin í Icesave-málin hafi verið tilviljun, harðlega. Vigdís sagði að það hefði ekki verið nein tilviljun að Ísland hafi unnið sigur fyrir EFTA-dómstólnum. Þjóðin hefði einfaldlega tekið völdin af ríkisstjórninni í málinu og stuðlað að þeim sigri.

Gunnar Bragi sakaði Árna um að tala niður til þjóðarinnar og þeirra þingmanna sem barist hefðu gegn Icesave-samningunum með ummælum sínum. Þar hefði engin tilviljun verið á ferð. Það hefði þannig ekki verið nein tilviljun að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi vísað málinu til þjóðarinnar. Sagði hann málflutninginn til skammar.

„Hann hlýtur bara að segja af sér maðurinn“

Þá rifjaði Gunnar upp að Steingrímur J. Sigfússon, hefði lagt sjálfan sig að veði pólitískt þegar fyrstu Icesave-samningarnir hafi komið fram sumarið 2009 og nú væri kominn tími til þess að innheimta það. „Hann hlýtur bara að segja af sér maðurinn.“ Ásmundur sagði Árna hafa gengið hart gegn samþingmönnum sínum á sínum tíma sem lögðust gegn Icesave-samningunum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jón Gunnarsson, tóku undir gagnrýni á ummæli Árna. Icesave-málið hefði ekki stjórnast af tilviljunum. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði málflutning stjórnarliða um Icesave-samninginn vera betri eftir dóm EFTA-dómstólsins en fyrir hann. Hins vegar væri holur hljómur í þeim málflutningi á meðan þeir hafi ekki beðið þá afsökunar sem þeir ofsóttu vegna málsins og vísaði þar til Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, tóku einnig til máls um Icesave-málið. Fögnuðu þau niðurstöðunni en lögðu áherslu á að nauðsynlegt hafi verið að reyna að ná samningum á sínum tíma í málinu.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagðist ekki telja að framsóknarmönnum yrði að ósk sinni að Icesave-málið yrði að kosningamáli í vor. Fólki horfði nú fram á við en ekki í baksýnisspegilinn. Það gerði hún í það minnsta.

mbl.is