Styttist í ættleiðingar barna frá Rússlandi

Það styttist væntanlega í að Íslendingar geti sótt um að …
Það styttist væntanlega í að Íslendingar geti sótt um að ættleiða börn frá Rússlandi AFP

Unnið hefur verið að ættleiðingarsambandi við Rússland í rúm þrjú ár eða frá því að stjórn Íslenskrar ættleiðingar óskaði eftir því við íslensk stjórnvöld að þau sendu formlega beiðni til rússneskra stjórnvalda um ættleiðingasamband milli landanna.

Síðastliðinn föstudag fóru lokadrög að samningi um alþjóðlegar ættleiðingar milli Íslands og Rússlands með hraðsendingu til Rússlands.

Í árslok 2011 lýsti Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands því yfir á fundi með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra Íslands að Rússar væru nú reiðubúnir að gera slíkan samning. Á fundi með Össuri lofaði hann jafnframt að setja sína bestu menn í að ljúka samningi sem fyrst.

„Íslensk ættleiðing var full bjartsýni við þessar fréttir en í blaðagrein sem Össur skrifaði í desember 2011 benti hann á að „Vafalítið eru mörg ljón á veginum ennþá sem við félagi Ögmundur þurfum saman að yfirvinna.”

Össur reyndist þarna sannspár, því mikil vinna hefur verið lögð í það í ráðuneytum innanríkis- og utanríkis á Íslandi að rita samning sem fer vel að lögum beggja landanna. Af hálfu ættleiðingarfélagsins hefur Elín Henriksen skipulagt þátt félagsins í þessu máli og fylgt því fast eftir að vinna við samninginn hafi ávalt verið ofarlega í forgangsröðinni í verkefnabunkanum hjá stjórnsýslunni.

Í maí á síðasta ári fóru fulltrúar innanríkisráðuneytisins á fund með starfsbræðrum sínum í Rússlandi til að bera saman bækur sínar og komu heim með þær fregnir að vel gæti orðið um ættleiðingarsamband að ræða milli landanna. Einungis þyrfti að endurrita fáein atriði og þýða samninginn.

Þessari vinnu er nú lokið og við höfum ástæðu til að ætla að á næstu vikum fáum við fulltrúa rússneska ríkisins í heimsókn til landsins til að undirrita samninginn,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri ættleiðingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina