„Þetta er búið að vera ágætt hjá okkur. Við hófum veiðiferðina á að reyna við ýsuveiðar fyrir austan en líkt og oftast áður var þorskurinn til vandræða.“
Þetta segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE á heimasíðu HB Granda, en skipið hefur verið að veiðum í hálfan mánuð og löndun er fyrirhuguð um miðjan næsta mánuð. Að sögn Kristins gengu ýsuveiðarnar fyrir austan nokkuð vel en auk ýsunnar var aflinn þorskur og gulllax.
„Núna erum við að veiðum við SV land og hér er gullkarfavertíðin að bresta á. Ufsaveiðin er hins vegar minni en við hefðum kosið. En svona er ufsinn. Hann mætir þegar honum sýnist.
Loðnan var gengin hjá og yfir daginn var hægt að fá þokkalega ýsuveiði en að næturlagi var mun meira um þorsk í aflanum. Við færðum okkur síðar hingað vestur eftir og erum nú að veiðum á út af Reykjanesi. Gullkarfavertíðin hefst venjulega í lok febrúar eða byrjun mars og ég get ekki kvartað yfir aflabrögðunum,“ segir Kristinn.