Fyrsta tréð á Íslandi til að rjúfa 25 metra múrinn

Tréð mældist 25,2 metrar á hæð.
Tréð mældist 25,2 metrar á hæð. Ljósmynd/Skógrækt ríkisins
<span>Starfsmenn Skógræktar ríkisins á Suðurlandi hafa mælt tré við Kirkjubæjarklaustur sem er 25,2 metrar á hæð. Þetta er að öllum líkindum hæsta tré landsins og líklega fyrsta tréð á Íslandi til að rjúfa 25 metra múrinn.</span> <span><br/></span> <span>Þetta kemur fram á vef Skógræktar ríkisins. Á Kirkjubæjarklaustri vex gróskumikill skógur í brekkunum ofan við byggðina. Skógurinn er í einkaeigu en hefur verið í umsjá Skógræktar ríkisins síðan 1964. Gróðursetti heimafólk á Klaustri 60 þús. birkiplöntur í brekkurnar upp úr 1940 og voru sitkagrenitré gróðursett í skjóli birkisins árið 1949. </span><span>Sitkagrenið hefur vaxið vel i Klausturskóginum og hafa þessi tré síðustu árin verið talin vera þau hæstu á landinu. </span> <span><br/> </span> <span>Nýverið mældi skógarvörðurinn á Suðurlandi hæstu trén í skóginum og reyndist eitt þeirra vera 25,2 m á hæð. Er þetta að öllum líkindum fyrsta tré sem rýfur 25 m hæðarmúrinn og það hæsta á landinu. Fjölmörg tré í skóginum hafa vaxið yfir 20 m hæð og eru nokkur þeirra rúmlega 24 m há. Sverasta tréð í skóginum er með um 65 cm þvermál í brjósthæð, en þess ber að geta að klafinn sem notaður til mælinganna er 60 cm og náði ekki um trjástofninn. Það tré er um 23,7 m á hæð og má áætla að trjábolurinn gæti náð 3 rúmmetrum viðar. Er þetta tré því með rúmmálsmestu trjám landsins. </span>
mbl.is