Hótar að óska eftir synjun forseta

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Efnahagsleg áhrif frumvarpsins verða gríðarleg og sú þróun byggðar í landinu sem hefur átt sér stað frá lögfestingu frjálsa framsalsins á aflaheimildum verður fest í sessi til frambúðar,“ segir meðal annars í bókun Þórs Saari, alþingismanns og fulltrúa Hreyfingarinnar í atvinnuveganefnd Alþingis, en nefndin afgreiddi frumvarpið til annarrar umræðu í kvöld.

Þór segir að meirihluti nefndarinnar undir stjórn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, hafi hafnað því að efnahagsleg áhrif frumvarpsins yrðu metin „og gengur þar með fram af miklu ábyrgðarleysi í störfum sínum. Vinnubrögð meirihluta atvinnuveganefndar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi í þessu máli eru með miklum ólíkindum og algerlega óskiljanleg, því verði frumvarpið að lögum er um að ræða mesta auðlindarán í sögu þjóðarinnar.“

Þá segir hann að frumvarpið gangi einnig þvert gegn auðlindaákvæði frumvarps að nýrri stjórnarskrá sem sé til meðferðar á Alþingi. „Samþykki Alþingi málið óbreytt mun þess verða formlega óskað við forseta Íslands að hann synji lögunum samþykkis og að þjóðin öll fái þá í framhaldinu tækifæri til að segja álit sitt á málinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina