Réttlætir framgöngu alræðisstjórna

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjörutíu og tveir einstaklingar sem beitt hafa sér í þágu öryggismála, friðhelgi og mannréttinda víða um heim hafa sent Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, opið bréf þar sem hugmyndum hans um að loka á aðgengi hér á landi að klámefni á netinu er mótmælt.

Varað er við slíkri ritskoðun í bréfinu og bent á að freistandi geti verið fyrir stjórnvöld í ríkjum að setja slíkar hömlur á netnotkun til þess að koma í veg fyrir málflutning, skoðanir eða miðlun upplýsinga sem eru þeim ekki að skapi og þau telja skaðlegar fyrir annað hvort þau sjálf eða almenning. Rétturinn til þess að sjá heiminn eins og hann er í raun sé mikilvægur fyrir lýðræðið og verði að verja með öllum ráðum.

Þá er bent á að hugmyndir íslenskra stjórnvalda skaði alþjóðlega baráttu gegn ritskoðun en aðeins með því að íhuga slíkt séu ráðamenn á Íslandi að réttlæta slíka framgöngu alræðisstjórna í heiminum. Er skorað á ráðherrann að hafna ritskoðun sem valkosti og leita annarra og árangursríkari leiða til þess að bæta samfélag manna bæði á Íslandi og utan þess.

Meðal þeirra Íslendinga sem rita undir bréfið eru rithöfundurinn Sjón, listamaðurinn Hugleikur Dagsson og lögfræðingurinn Aðalheiður Ámundadóttir.

Bréfið í heild

mbl.is