30 ár frá stofnun Kvennalista

Kvennalista konur. Þriðja frá vinstri er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Kvennalista konur. Þriðja frá vinstri er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Börkur Arnarson

Samtök um Kvennalista voru stofnuð 13. mars 1983 og buðu samtökin fram lista í þremur kjördæmum við alþingiskosningar vorið 1983.

Kvennalistinn hlaut 5,5% atkvæða og þrjár konur komust á þing, þær Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

Kvennalistinn hlaut 10,1% atkvæða í þingkosningunum 1987 og kom sex konum á þing. Árið 1991 var fylgið 8,3% og 5 þingkonur en 4,9% og 3 þingkonur árið 1995.

Í frétt Jafnréttisstofu segir að Kvennalistinn hafi barist fyrir kvenfrelsi, því að konur yrðu metnar að eigin verðleikum til jafns við karla. Fylgjendur Kvennalistans voru andvígir hefðbundnum  skilningi á jafnréttishugtakinu eins og það birtist í lögum og túlkað af samfélaginu.

Kvennalistinn hélt því fram að vegna hins sérstaka reynsluheims kvenna væri gildismat þeirra annað en það sem ráðandi var í hinum karllæga heimi og því væri nauðsynlegt að ákvarðanir sem vörðuðu allt samfélagið væru einnig byggðar á gildismati þeirra. Markmiðið var að konur og karlar gætu nýtt sér það besta úr hvorum reynsluheimi við mótun nýs og réttlátara samfélags. Hugmyndafræði Kvennalistans var nokkuð róttæk en hún byggði á því að konur væru í lægri stöðu en karlar vegna kerfislægra þátta og því nauðsynlegt að hafa áhrif á það samfélagskerfi sem misréttið birtist í til að bæta stöðu kvenna.

Framboð kvennalistans breytti landslagi stjórnmálanna hvað varðar sýnileika kvenna á Alþingi en einungis tvær til þrjár konur höfðu setið á þingi fram á áttunda áratuginn.

Kvennalistakonur settu einnig sitt mark á stjórnmálin með nýrri nálgun og tilkomu nýrra málefna sem þær settu á dagskrá og vörðuðu m.a. valddreifingu, félagsleg réttindi kvenna og karla, fæðingarorlof fyrir karla, launajafnrétti, stöðu kvenna í ólaunuðum störfum, réttindi barnafjölskyldna, ofbeldi gegn konum og börnum, réttindi samkynhneigðra, kynjasjónarmið hvað varðar menningu og listir, umhverfisvernd o.fl.


mbl.is