Sækja jeppamenn á Skálafellsjökul

Jeppi sem tók þátt í ferðinni á Skálafellsjökul.
Jeppi sem tók þátt í ferðinni á Skálafellsjökul. Ljósmynd/Runólfur Hauksson

Björgunarsveitarmenn úr Björgunarfélagi Hornafjarðar voru í kvöld kallaðir út til að aðstoða hóp fólks sem er í vandræðum upp á Skálafellsjökli. Fólkið er á nokkrum bílum og er færið mjög erfitt og bílarnir hafa verið að festa sig.

Að sögn lögreglunnar á Höfn í Hornafirði er ekki talið að neinn sé í hættu. Yfir 100 manns á yfir 50 bílum tók þátt í jeppaferðinni á jökulinn, en bílarnir lögðu af stað á jökulinn á fimmtudag og föstudag. 30-40 bílar komust sjálfir niður af jöklinum í dag, en liðlega 20 bílar náðu ekki að komast niður án aðstoðar. Í bílunum eru yfir 50 manns.

Björgunarsveitarmenn reikna með að skilja þurfi einhverja bíla eftir á jöklinum og að þeir verði að einbeita sér að því að koma fólkinu til byggða.

Lögreglan fékk beiðni um aðstoð um kl. 19 í kvöld. Björgunarfélagið fór á sjö bílum á móts við jeppamennina og reiknar með að nokkra tíma taki að ná fólkinu niður af jöklinum.

Hvasst er á jöklinum og blint. Bílarnir hafa verið að festa sig um 7-8 km inn á jöklinum og ferðin niður hefur því gegnið afar hægt.

mbl.is