„Eðlilegt ástand“ á ný við Heklu

Hekla séð frá Álfsstöðum á Skeiðum.
Hekla séð frá Álfsstöðum á Skeiðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Veðurstofa Íslands hefur breytt litakóða fyrir Heklu vegna flugumferðar úr gulu stigi í grænt sem þýðir eðlilegt ástand.

Litakóði vegna flugumferðar: http://hraun.vedur.is/ja/eldgos/volcano_status.png

Litakóði Heklu vegna flugumferðar var settur á gult stig þann 25. mars 2013 vegna aukinnar skjálftavirkni um 4,5 km norðaustur af hátindi Heklu. Frá 10. til 23. mars 2013 mældust sjö smáskjálftar með upptök á því svæði sem var óvenjulegt. Engir jarðskjálftar hafa mælst við Heklu síðan 23. mars.

Engar breytingar hafa mælst á gasi og hita við hátind Heklu. Ennfremur hafa þenslumælingar í borholum ásamt samfelldum GPS-mælingum ekki sýnt nein mælanleg merki um breytingar á jarðskorpuhreyfingum.

Smáskjálftavirknin í síðasta mánuði getur mögulega hafa orsakast af auknum þrýstingi vegna kvikusöfnunar undir Heklu. Hins vegar bendir hvorki skjálftavirkni né aðrar mælingar síðan þá til aukinnar virkni við Heklu og engin merki sjást um yfirvofandi gos. Þótt litakóðinn sé kominn á grænt stig er áfram vel fylgst með öllum mælum við Heklu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert