Árangur gegn mótorhjólagengjum

Lögreglan kynnti aðgerðir lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi í dag.
Lögreglan kynnti aðgerðir lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi í dag. mbl.is/Rósa Braga

Lögregluyfirvöld hér á landi hafa náð verulegum árangri í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi.  Staða vélhjólagengja eins og Hells Angels og Outlaws  hefur veikst undanfarin misseri og er það m.a. árangur stýrihóps ríkislögreglustjóra sem skipaður var árið 2011.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í dag. Á fundinum var fjallað um aðgerðir lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

„Staðan raunverulega núna er sú að við teljum að þessar fyrirbyggjandi aðgerðir og aðferðir sem lögreglan hefur með markvissum hætti  notast við, bæði með rannsóknum og aðgerðum á götunni, gert það að verkum að staða þessara tveggja klúbba hefur aldrei verið jafn veik og í dag. Erlendir kollegar okkar segja t.d. að Ísland sé í þeirri einstöku stöðu að geta hamlað starfsemi þeirra verulega eða komið í veg fyrir að þeir starfi hér á landi,“ sagði Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á fundinum í dag.

Árangur og starf þessa stýrihóps ríkislögreglustjóra sem skipaður var afinnanríkisráðuneytinu árið 2011 var kynntur á fundinum í dag.  Starf stýrihópsins hefur byggt á eftirliti og upplýsingaöflun þvert á lögreglustofnanir og aðrar opinberar stofnanir eins og t.d. tollstjóra.

Í baráttu sinni gegn starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hefur lögregla hér á landi komið í veg fyrir fullgildingu Outlaws mótorhjólasamtakanna. Á blaðamannfundinum kom einnig fram að Hells Angels á Íslandi, Vítisenglar, hafi lent í vandræðum gagnvart móðurfélagi sínu m.a. vegna afskipta lögreglu hér á landi. 

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að tillögu Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra að veita 25 milljónum króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til áframhaldandi vinnu lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Innanríkisráðherra segir að þetta framlag þurfi síðan að endurskoða í tengslum við fjáraukalög í haust og fjárlögum næsta árs með það fyrir augum að framlög til þessa starfs verði eigi minni en verið hefur.

1200 gæsluvarðhaldsdagar

Á fundinum kom fram að öflugt samstarf lögregluyfirvalda við opinberar aðila eins og ríkisskattstjóra, landamæraeftirlit og aðrar opinberar stofnanir hafi orðið til þess að draga úr fjárhagslegum ávinningi hópa sem stunda skipulagða glæpastarfsemi hér á landi.

Starf stýrihópsins hefur verið geysilega umfangsmikið og m.a. falist í samstarfi við Europol og lögregluyfirvöld á norðurlöndunum. Til marks um umfang, eftirlit og aðgerðir lögreglunnar á þessu sviði hafa einstaklingar tengdir rannsóknum stýrihópsins verið í gæsluvarðhaldi í samtals um 1200 daga frá því 2011 þegar stýrihópurinn hóf störf.

Í aðdraganda stofnunar stýrihópsins settu fulltrúar lögregluyfirvalda ákveðnar áhyggjur af stöðu mála fram við við fulltrúa innanríkisráðuneytisins. Karl Steinar segir að því miður hafi komið í ljós í vinnu stýrihópsins að þær áhyggjur sem settar voru fram á sínum tíma hafi verið réttmætar.

Lögregla hefur lagt hald á talsvert magn fíkniefna og vopna, þar með talið skotvopn í áðurnefndri vinnu. Hald hefur verið lagt á 11 skotvopn auk fjölda hnífa. Lögreglan hefur haft miklar áhyggjur af auknum vopnaburði og lagt miklar áherslu á að koma höndum yfir vopn og telur sig í það minnsta hafa hægt verulega á þeirri þróun í íslensku samfélagi. Þetta kom fram í máli Jóni Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra á fundinum. 

Skoða vændi og mansal

Síðan sl. haust hefur vinna stýrihópsins að einhverju leyti beinst að því að kortleggja brotastarfsemi tengda vændi og mansali. Fyrir liggur ítarleg greining á umfangi vændis og birtingarmyndum þess. Er það mat rannsóknarteymisins að umfang vændis er umtalsvert gegnum netið og að umtalsverð eftirspurn er eftir vændi hér á landi. Nú þegar eru um 60 mál vegna vændiskaupa til rannsóknar.  Rannsóknarteymið lagði sérstaka áherslu á að kortleggja vændi á netinu í rannsóknum sínum. Um 60 vændiskaupendur hafa verið yfirheyrðir og rannsókn enn fleiri mála er í gangi. Karl Steinar upplýsti að kaupendur vændis væru allt frá því að vera 16 ára til 70 ára. Einnig greindi hann frá því að þegar lögreglan væri þegar byrjuð að ákæra vegna nokkurra mála.

Hann sagði verkefninu þó alls ekki lokið. Skoða þyrfti fleiri birtingarmyndir vændis og mansals heldur en aðeins á netinu, sérstaklega með skemmtanaiðnaðinn í huga. Þá greindi Karl Steinar frá því að einnig þyrfti að skoða mansalsmálin eins og þau birtast á vinnumarkaðnum. Lögreglan hafi haft nokkur mál tengd vinnumarkaðnum til skoðunar. Í máli Karls Steinars kom fram að konurnar sem lögreglan hefði talað við vegna rannsókna á vændi og mansali væru 32-45 ára.  Um er að ræða 7 vændiskonur og eru tvær kvennanna íslenskar. Þeim hefur öllum verið boðið aðstoð sem hið opinberar veitir m.a. með það í huga að þarna gætu verið á ferðinni fórnarlömb mansals.

 Karl Steinar sagði að lögregla hér á landi þyrfti í auknum og enn frekari mæli að fylgjast með þróun í starfsemi skipulagðrar glæpastarfsemi erlendis. Ekki dugi að skoða starfsemina eins og hún var erlendis fyrir fimm árum, það hafi dugað fyrir einhverjum árum síðan. Nú þurfi hinsvegar að fylgjast með þróuninni nákvæmlega eins og hún sé í dag.  Ekki sé lengur þetta bil sem áður var.

Þá bætti Karl við að tilvist þessara hópa, vélhjólagengja og ekki síður hópa sem mynda bakland fyrir vændi og mansal segi okkur að hérlend yfirvöld þurfi að vera á tánum varðandi það sem er að gerast í Evrópu og annarsstaðar í heiminum ef þau eigi að vera sem best í stakk búinn til að takast á við þessa aðila hér á landi. 

Skipulögð starfsemi?

 Karl Steinar sagði að sérstaklega væri til skoðunar milliganga um vændi, sem sé ólöglegt athæfi. Hann sagði að þegar umhverfi þeirra vændiskvenna sem rætt hefur verið við sé skoðað komi í ljós ákveðin samsvörun við það sem þekkist erlendis. Konurnar hafi ferðast um Evrópu með stuttum stoppum. Nokkrar þeirra hafi í raun komið hingað til lands nokkrum sinnum síðan í september þegar skoðun þessara mála hófst. Að  mati Karls Steinars er því ýmislegt sem bendir til að þær konur sem hafi stundað vændi hér á landi tengist að einhverju leyti skipulagðri glæpastarfsemi sem að mestu leyti er stýrt erlendis frá.  

mbl.is