Harma að hvalveiðar séu að hefjast

Hvalskurður í Hvalfirði
Hvalskurður í Hvalfirði mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök ferðaþjónustunnar harma að hrefnuveiðar skulu vera að hefjast enn á ný án þess að nefnd sem skipuð var af ráðherra um nýtingu hvala hafi lokið störfum og með því eru störf nefndarinnar gerð að engu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SAF.

Hrefnur hafa frá upphafi verið hryggsúlan í starfsemi hvalaskoðunarfyrirtækja hér við land og hrefnurannsóknir á svæðinu sýna að það eru sömu dýrin sem sækja á svæðið ár eftir ár.

Forstöðumenn hvalaskoðunarfyrirtækjanna í Reykjavík hafa því miklar áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur síðastliðin ár en nær allar hrefnuveiðar hafa farið fram á Faxaflóanum, þ.e. rétt við og á hvalaskoðunarsvæðunum. Það er óumdeilt að hrefna sem er skotin verður ekki til sýnis auk þess sem augljóst er að þær hrefnur, sem verða fyrir áreiti veiðimanna, styggjast. Því má líta á hrefnuveiðar, sér í lagi veiðarnar innan hvalaskoðunarsvæðisins, sem beina ógn við starfsemi hvalaskoðunarfyrirtækja á svæðinu. Þróunin hefur verið þannig síðustu árin að færri og færri dýr sjást í hverri ferð og eru þau erfiðari að nálgast en áður.

Engin dæmi eru til um að hvalveiðar og hvalaskoðun fari saman, hvorki í Noregi eða annars staðar, þó svo öðru hafi verið haldið fram. Enn og aftur skora Samtök ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtökin á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurmeta stöðuna og banna allar hvalveiðar í Faxaflóa og innan 30 sml frá öllum hvalaskoðunarsvæðum,“ segir í tilkynningu SAF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert