Leiðrétta misskilning ráðherra

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, flutti ræðu fyrir utan Stjórnarráðið …
Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, flutti ræðu fyrir utan Stjórnarráðið í dag Styrmir Kári

Á bilinu 1.000 til 1.200 manns voru saman komin fyrir utan Stjórnarráðið í dag til að afhenda forsætisráðherra umsagnir við rammaáætlun og mótmæla þeim fyrirætlunum stjórnvalda að slaka á náttúruvernd. 

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, sagði í ávarpi sínu á tröppum Stjórnarráðsins í dag að náttúruverndarsinnar væru komnir til að leiðrétta misskilning sem gætt hefði hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. 

„Forsætisráðherra sagði í viðtali um helgina að umsagnir um rammaáætlun hefðu verið staðlaður fjöldapóstur náttúruverndarfólks. Þessi orð bera þess merki að forsætisráðherra sé ekki nægilega vel upplýstur um allar þær fjölbreyttu umsagnir sem bárust,“ sagði Guðmundur Hörður í ávarpi sínu.

Hann sagði að fjölmargir umsagnaraðilar rammaáætlunar, þeirra á meðal Samtök ferðaþjónustunnar, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, bæjarstjórnar Hveragerðis og Veiðifélag Þjórsár, hefðu krafist aukinnar náttúruverndar á mörgum og mismunandi forsendum. Þessar umsagnir, auk fjölda annarra umsagna, voru afhentar Jóhannesi Þóri Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, en ráðherrann gat ekki veitt umsögnunum viðtöku sökum annarra starfa. Umsagnirnar voru að sögn Guðmundar allar á leið að í þeim var krafist aukinnar náttúruverndar.

„Er nema von að fólk sé áhyggjufullt?“ 

„Við erum líka saman komin hér í dag vegna þess að okkur er brugðið. Ríkisstjórn sem segist í stefnuyfirlýsingu vilja vinna gegn sundurlyndi og tortryggni hefur á fyrstu dögum sínum boðað stórfelldar stóriðjuframkvæmdir, eignarnám á landi fyrir háspennulínur, virkjun háhitasvæða á Reykjanesskaga, virkjun Urriðafoss í Þjórsá, virkjanaframkvæmdir í Skaptárhreppi, og þá hafa ráðherrar yfir vilja sínum til að opna miðhálendið fyrir virkjanaframkvæmdum. Er nema von að fólk sé áhyggjufullt?“ spurði Guðmundur í ræðu sinni.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs veitti umsögnunum viðtöku úr hendi Guðmundar Harðar auk þess sem hann afhenti honum áskorun Landverndar um að draga til baka þær yfirlýsingar sem hefðu verið gefnar um virkjanamál og stóriðju. Jóhannes sagði við það tilefni að forsætisráðherra hefði þegar kynnt sér umsagnirnar um rammaáætlun og tók vel í ósk Guðmundar um að efna til fundar forsætisráðherrans og náttúruverndarsinna.

Stenst ekki skoðun að þetta hafi verið fjöldapóstur 400 náttúruverndarsinna

„Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar hafa hleypt ákveðinni óánægju í fólk, yfirlýsingar um að fara eigi í álver við Helguvík og allar þær virkjanir sem því fylgja,“ sagði Guðmundur Hörður í samtali við blaðamann. „Ummæli forsætisráðherra um að umsagnir um rammaáætlanir hafi verið fjöldapóstur 400 náttúruverndarsinna stenst enga skoðun, þetta voru umsagnir margra aðila sem lögðu til að gengið yrði lengra í verndarátt,“ sagði Guðmundur.

„Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að rammaáætluninni verði breytt, umhverfisráðherra talaði um að til skoðunar væru breytingar á stöðu átta virkjanakosta, en það er meira en nokkur bjóst við.“

Guðmundur svaraði því neitandi þegar hann var inntur svara um hvort stofnaður hefði verið samráðsvettvangur náttúruverndarsinna og stjórnvalda. „Nei, en það er eitt af því sem við erum að kalla eftir, að þetta verði ekki svona leikur með einhliða yfirlýsingum heldur viljum við taka upp samtalið,“ sagði Guðmundur.

Frétt mbl.is: Á annað þúsund við Stjórnarráðið

Guðmundur Hörður afhendir aðstoðarmanni forsætisráðherra umsagnirnar
Guðmundur Hörður afhendir aðstoðarmanni forsætisráðherra umsagnirnar Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert