Vilja ólmir gefa út sögu Guðmundar

Guðmundur Felix Grétarsson
Guðmundur Felix Grétarsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þeir vildu ólmir fá að gefa út þessa sögu,“ segir Guðmundur Grétar Felixson sem bíður í Frakklandi eftir handleggjaágræðslu. Fulltrúi frá bókaútgáfunni Les Arénes hitti Guðmund í morgun og kynnti honum hugmyndir um útgáfu ævisögu hans í Frakklandi. Sökum þess leitar Guðmundur nú að íslenskum rithöfundi.

Guðmundur hefur búið í frönsku borginni Lyon frá því snemmsumars og reiknar með því að vera settur á biðlista eftir handleggjum um næstu mánaðamót. Eftir það tekur við hálfgert happdrætti. „Ég gæti fengið gjafa daginn eftir en ég gæti allt eins þurft að bíða lengi. Sá síðasti sem fór á listann þurfti að bíða í tvær vikur. Það eru ekki margir sem bíða eftir höndum en á móti kemur að ekki er nóg að blóðflokkurinn sé réttur heldur þurfa hendurnar að passa á mig, litarhaft og stærð.“

Ástæða þess að Guðmundur býr í Lyon er að aðgerðin verður framkvæmd þar og þegar gjafi finnst er afar skammur fyrirvari. Um er að ræða gríðarlega flókna aðgerð sem getur tekið allt að fjörutíu klukkustundir. Hann verður með aðgerðinni fyrsti maðurinn sem fær nýja handleggi alveg upp við axlir.

Einnig unnið að gerð heimildarmyndar

Unnið er að gerð heimildarmyndar um þrautargöngu Guðmundar sem missti hendurnar í vinnuslysi fyrir fimmtán árum. Íslenskt fyrirtæki stendur að baki gerð myndarinnar en það fékk til liðs við sig franska meðframleiðendur og það var í gegnum þá sem bókaútgáfan franska komst á snoðir um sögu Guðmundar.

Næsta skref hjá Guðmundi, hvað bókina varðar, er að finna íslenskan rithöfund sem getur skrifað hana. Hann segir að bókin yrði gefin út á Íslandi en hún svo þýdd yfir á frönsku. „Ég hef aldrei gefið út bók þannig þetta þarf að vera góður rithöfundur sem getur lesið í það sem ég segi og einnig það sem ég segi ekki.“

Guðmundur Felix.
Guðmundur Felix. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert