Byggja fyrir 25 milljarða

Tölvugerð mynd sem sýnir anddyri byggingarinnar.
Tölvugerð mynd sem sýnir anddyri byggingarinnar.

Borgarráð ákvað á fundi sínum í dag að úthluta Háskóla Íslands lóð við Sæmundargötu 15 – 19 vegna Vísindagarða. Á lóðinni, sem er tæpir sjö þúsund fermetrar, fyrirhugar alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvogen að reisa um ellefu þúsund fermetra byggingu en þar verður starfrækt Hátæknisetur í samvinnu við Vísindagarða Háskóla Íslands. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að verkefnið feli í sér eina stærstu fjárfestingu einkafyrirtækis á Íslandi frá hruni, 

Stefnt að því hefja framkvæmdir fyrir árslok

Alvogen hyggst hefja framkvæmdir við Hátæknisetrið fyrir árslok og stefnt er að því að húsið verði fullbúið innan tveggja ára. Heildarfjárfesting Alvogen vegna verkefnisins er áætluð um 25 milljarðar króna, þar með talið uppbygging á aðstöðu á Íslandi fyrir um 6 milljarða króna.

Hátæknisetrið mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen. Þar mun einnig fara fram þróun- og framleiðsla líftæknilyfja. Í Hátæknisetrinu munu um 200 starfsmenn Alvogen starfa á næstu árum.

Í Hátæknisetri Alvogen er fyrirhugað að þróa og framleiða samheitalyfjaútgáfu líftæknilyfja sem eru nú þegar á markaði og markaðssetja þau þegar einkaleyfi þeirra renna út. Lyfin eru öll í hópi söluhæstu lyfja í heiminum í dag og seljast fyrir tugi milljarða bandaríkjadala á ári. Undanfarna mánuði hefur Alvogen lagt mat á ákjósanlega staðsetningu fyrir starfsemina og þykir Ísland nú ákjósanlegasti staðurinn fyrir byggingu Hátækniseturs. Ýmsir þættir hafa hinsvegar áhrif á endanlega niðurstöðu, s.s. leyfisveitingar.

Hátæknisetrið verður rekið sem hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands og mun Alvogen m.a. hafa samstarf við deildir og stofnanir innan Háskóla Íslands, þar á meðal verkfræðideildir og lyfjafræðideild skólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert