Bannað að birta „CLOSED“ á ljósaskilti

Íslensk málnefnd segir þessa merkingu fela í sér lögbrot.
Íslensk málnefnd segir þessa merkingu fela í sér lögbrot.

Íslensk málnefnd gerir alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að skipta íslensku út fyrir ensku á upplýsinga- og viðvörunarskiltum sínum við þjóðvegi landsins.

Vegagerðin birti í vikunni frétt um að hún ætli að nota orðið „CLOSED“ á ljósaskiltum í staðinn fyrir orðið „ÓFÆRT“. Í fréttinni segir að um sé að ræða lausn til bráðbrigða meðan unnið sé að annarri og varanlegri lausn.

Íslensk málnefnd bendir á að þessi ákvörðun sé brot á áttundu grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í greinni segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“

Haraldur Bernharðsson, varaformaður Íslenskrar málnefndar segir að Vegagerðinni beri að veita almannaþjónustu sína á íslensku. „Mikilvægar upplýsingar, svo sem viðvaranir vegna veðurs og færðar eiga því, lögum samkvæmt, að vera á íslensku. Vega­gerðin hefur ekki leyfi til að hafa þær eingöngu á ensku.

Íslensk málnefnd hefur óskað eftir því við Vegagerðina að farið verði að lögum í þessu efni. Rétt og skylt er að veita erlendum ferðamönnum góðar upplýsingar, en það má ekki gerast á kostnað íslensku eða koma alveg í stað upplýsinga á íslensku. Finna þarf leið til að flytja þessi boð bæði á íslensku og öðrum tungumálum,“ segir Haraldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina