Fara fram á lögbann

Sýslumaður úrskurðar um lögbannskröfur
Sýslumaður úrskurðar um lögbannskröfur mbl.is/Ómar

Smáís og fleiri hagsmunaaðilar um höfundarrétt hafa sent lögbannsbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík, þar sem farið er fram á að lokað verði fyrir aðgang viðskiptavina Hringdu, auk annarra íslenskra fjarskiptafélaga, að vissum vefsvæðum á netinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hringdu.

Með lögbannsbeiðninni er lagt til að lokað verði á alla internetumferð viðskiptavina til og frá þeim netþjónum sem hýsa umræddar vefsíður. Fyrirtaka málsins verður hjá sýslumanni nk. föstudag, segir í fréttatilkynningu frá Hringdu.

Kristinn Pétursson, talsmaður fjarskiptafélagsins Hringdu, segir í fréttatilkynningu að Smáís hafi með þessum aðgerðum farið inn á hættulegar brautir.

„Hér er SMÁÍS komið í hlutverk netlöggunnar og ætlast til þess að síma- og fjarskiptafyrirtækin sjái um fangelsismálin. Þetta er álíka gáfulegt og ætla að stöðva smygl með því að banna flugumferð og siglingar. SMÁÍS eiga að leita til lögreglunnar til að stöðva afbrotamennina frekar en taka lögin í eigin hendur og hindra aðgang almennings að internetinu.

Okkur hjá Hringdu hryllir við þessum tilburðum SMÁÍS. Umræðan um takmörkun á notkun internetsins hefur hingað til einskorðast við erlenda harðstjóra sem vilja ráðskast með netnotkun þegna sinna. Það er hrein og bein fásinna að hagsmunasamtök láti sér detta í hug að stjórna aðgengi Íslendinga að internetinu með sambærilegum aðferðum.

Hringdu mun beita sér af hörku gegn öllum tilraunum til að láta fjarskiptafélagið leika netlöggu og ritskoða netnotkun viðskiptavina. SMÁÍS og lögreglan hafa margvísleg önnur úrræði til að finna þá sem brjóta gegn lögum um höfundarrétt og stöðva athæfi þeirra. Engin ástæða er til að velta vandamálinu yfir á aðra með tillögum að árangurslitlum tæknilegum útfærslum sem annaðhvert mannsbarn kemst framhjá en veldur öðrum verulegum vandræðum. Fjarskiptafélögin eiga ekki að þurfa að leggja mat á lögmæti vefsíðna og lögbanna af þessu tagi. Heldur verða hagsmunaaðilar að sjálfir að elta uppi lögbrjóta internetsins,“ segir Kristinn í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert