Sagður hafa kveikt í kynfærum

Gæsluvarðhald yfir Stefáni Loga Sívarssyni var staðfest af Hæstarétti með …
Gæsluvarðhald yfir Stefáni Loga Sívarssyni var staðfest af Hæstarétti með vísun í almannahagsmuni.

Í dómi Hæstaréttar þar sem gæsluvarðhald Stefáns Loga Sívarssonar er staðfest er greingargerð lögreglu birt þar sem vitnisburðir brotaþola kemur fram en Stefán Logi er grunaður um að hafa tekið þátt í grófum líkamsárásum og frelsissviptingum síðastliðið sumar meðal annars í sumarbústað nálægt Stokkseyri.

Í greinargerð lögreglu er atburðum þriggja árása lýst og er tilefni árásanna sagt vera framhjáhald eins fórnarlambsins við kærustu Stefáns Loga. Ástæða er til að vara við lýsingunum sem hér fylgja á eftir.

Í greinargerðinni kemur eftirfarandi fram:

„Meintur brotaþoli í málinu, A, hafi lýst atvikum þannig að hann hafi verið að skemmta sér helgina 28.–30. júní ásamt ákærða. Að kvöldi sunnudagsins hafi hann svo tjáð ákærða, er þeir hafi verið staddir í gleðskap að [...] í Reykjavík, að B hefði átt í kynferðislegu sambandi með [...] ákærða. Við þær fréttir hafi ákærði reiðst mikið og ráðist að A með því að slá hann hnefahögg í andlitið. Því næst hafi A verið neyddur upp í bifreið og ekið með hann að [...] í Grafarvogi, þar sem ákærði hafi aftur tekið á móti honum með hnefahöggum og neytt hann upp í aðra bifreið sem hafi ekið með hann til baka að [...]. Á meðan á akstrinum hafi staðið segir hann ákærða hafa stungið hann nokkrum sinnum með eggvopni. Er hann hafi svo komið aftur í íbúðina að [...] segir hann ofbeldið hafa stigmagnast og að það hafi verið ákærði og meðákærði Y sem hafi haft sig mest í frammi. Hafi hann lýst því að hann hafi verið kýldur í andlitið nokkrum sinnum, laminn í hnéskeljar og handarbök líklega með hafnaboltakylfu. Þá hafi hann verið laminn með minni kylfu í andlitið, og telji sig hafa kinnbeinsbrotnað við það. Þá hafi þeir notað skæri og heimatilbúinn hníf eða rakvélablað til að stinga hann í höfuðið og klippa í eyrun á honum. Þá segi hann meðákærða Y hafa stungið sig 3-4 sinnum með notaðri sprautunál, á meðan ákærði hafi haldið honum niðri. Loks hafi ákærði skipað honum að fara í sturtu til að þrífa af sér blóð og í kjölfarið hafi hann farið með hópnum að [...] í Hafnarfirði. Það hafi svo verið mánudagsmorguninn sem hann hafi yfirgefið vettvang og leitað skjóls hjá vini sínum uns lögregla hafi haft samband við hann.“

Sagður hafa sprautað rakspíra á kynfæri og kveikt í

Annar brotaþoli, sem sagður er hafa átt samneyti við kærustu Stefáns, lýsti einnig árásinni á sig eftir því sem kemur fram í greinargerð lögreglu:

„Hafi þeir lamið hann með kylfum og bundið hann að fyrirskipan ákærða þannig að hann hafi legið á maganum með hendur fyrir aftan bak og þeir þannig haldið áfram að lemja á honum. Hafi ákærði og Y síðan afklætt hann, sprautað rakspíra á bringuna og kveikt í. Hafi þeir síðan gert það sama við kynfæri hans. Hafi hann við það hreyft sig í þeim tilgangi að slökkva logann en þá hafi þeir tveir látið höggin dynja á honum. Ákærði hafi síðan á milli högga spurt hann um [...] sína. Þá kveður hann ákærða hafa lamið sig með kylfu í andlitið þannig að efri vör hans rifnað og framtönn brotnað. Hafi ákærði síðan þvingað hann til að gleypa heila lúku af óþekktum pillum og skipað meðákærða Þ að sprauta hann í rassinn með óþekktu lyfi, sem og hann gerði. Hafi þeir því næst farið að lemja hann með beltum í bakið en ákærði hafi svo loks farið með hann inn á baðherbergi til að þrífa af honum blóð, en haldið barsmíðunum jafnframt áfram.“

Loks var brotaþola ekið í annað hús þar sem misþyrmingunum hafi verið haldið áfram. Eru þeir sagðir hafa bundið hann við burðarbita í kjallara hússins, en hann hafi svo loks verið leystur af húsráðanda og þá getað haft samband við föður sinn sem hafi komið að sækja hann.

Sagður hafa bundið belti um háls kærustu sinnar

Þá sætir Stefán einnig ákæru vegna árásar á kærustu hans en í greinargerð lögreglu segir að „honum sé gefið að sök að hafa á heimili hennar bundið belti af baðslopp um hálsinn á henni og dregið hana þannig að hún hafi nærri verið köfnuð.“ 

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að um sé að ræða mjög alvarleg og svívirðileg brot sem hann sé sterklega grunaður um og að það gæti valdið óróa og ótta í samfélaginu um áframhaldandi ofbeldisbrot Stefáns verði hann látinn laus. Þess vegna þótti nauðsynlegt að framlengja gæsluvarðhald hans með tilliti til almannahagsmuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert