Lögreglan við öllu búin

Mennirnir voru handteknir er þeir komu til Íslands með síðdegisflugi …
Mennirnir voru handteknir er þeir komu til Íslands með síðdegisflugi í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það eru sex til skoðunar á landamærum núna hjá okkur,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, um karlmenn sem voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis grunaðir um að vera liðsmenn samtakanna Devils Choice. Fáist það staðfest verður mönnum vísað úr landi á morgun.

„Það er verið að ganga úr skugga um það [að mennirnir séu liðsmenn samtakanna],“ segir Sigríður og bætir við að engar ákvarðanir hafi verið teknar að svo stöddu. Mennirnir voru handteknir og færðir í skýrslutöku.

„Það er ekkert útilokað að það komi fleiri [liðsmenn samtakanna til landsins],“ segir Sigríður aðspurð, en mennirnir komu hingað til lands til að sækja gleðskap systursamtaka sinna.

Sex konur voru með mönnunum í för en þeim var sleppt að lokinni skýrslutöku. Hópurinn var að koma til landsins frá Ósló í Noregi.

Lögreglan á Suðurnesjum var með mikinn viðbúnað á flugvellinum síðdegis í dag og naut hún aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. 

Þrír liðsmenn Devils Choice voru handteknir við komuna til landsins í gær og í dag var þeim vísað úr landi.

Sigríður bendir á að dómur sem féll 17. október í Hæstarétti staðfesti að lögreglan sé í fullum í rétti til að vísa liðsmönnum vélhjólasamtaka á borð við Vítisengla úr landi.

Í dómnum var íslenska ríkið sýknað af kröfu norsks Vítisengils um miskabætur vegna frávísunar frá Íslandi, er staðfesting á lögmæti ákvarðana og vinnubragða íslenskra yfirvalda. Í dómnum kemur fram, að hættumat ríkislögreglustjóra, sem stjórnvöld höfðu stuðst við þegar ákvörðun var tekin um að vísa viðkomandi frá landinu, hefði ekki verið haldið annmörkum og að málið hefði jafnframt verið nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin um frávísun.

„Þetta er mjög mikilvægt fordæmi,“ segir Sigríður og bætir við að þetta sé mikilvægur liður í 10 ára baráttu lögreglunnar gegn þessum vélhjólasamtökunum.

Félagar í Devils Choice stöðvaðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert