Danadrottning í boði á Bessastöðum

Margrét II Danadrottning snæðir nú kvöldverð á Bessastöðum í boði forseta Íslands ásamt ráðherrum ríkisstjórnar Íslands og íslenskum og dönskum fræðimönnum sem unnið hafa hjá Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík og í Danmörku. 

Alls eru 51 manns á gestalista veislunnar. Frá ríkisstjórn Íslands voru viðstaddir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Frá ríkisstjórn Danmerkur var Manu Hareen, ráðherra norrænnar samvinnu. Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Danmörku var einnig viðstaddur. 

Reyktur áll, lax og súkkulaðikaka

Miklar kræsingar voru á boðstólnum fyrir gesti forsetans. Í forrétt var grænmeti borið fram með reyktum áli og fylltu eggi. Í aðalrétt var sunnlenskur lax með íslensku rótarmeti og í eftirrétt var svo súkkulaðikaka með jarðaberjum. 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, bauð Margréti velkomna til Bessastaða og sagði það mikla ánægju að bjóða henni enn á ný til hins forna konungsgarðs, „höfuðbólsins sem setið var um aldir af fulltrúum forfeðra yðar og skipar sérstakan sess í sameiginlegri sögu Íslands og Danmerkur.“

Hann sagði Margréti að hún væri sá erlendi þjóðhöfðingi sem hefði ofast setið til borðs á Bessastöðum og það væri skemmtileg sönnun einstakrar vináttu þjóðanna. Hann sagði alla Íslendinga fagna þeim tíðindum að hún væri hingað komið til að vera við hátíðarhöld í tilefni af því að 350 eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar.

Andi galdurs á kreiki á Bessastöðum?

„Eins og þér vitið,“ sagði Ólafur Ragnar í ræðu sinni, „skrifaði Nóbelskáldið Halldór Laxness mikla skáldsögu, Íslandsklukkuna, þar sem persóna Árna Magnússonar og æviverk verða helsta efnisnáma skáldsins sem óf slíkan galdravef að í hugum Íslendinga renna ævintýri og örlög sögupersónunnar Arnas Arnæus saman við ævi fyrirmyndar hans sem við heiðrum á morgun; Snæfríður Íslandssól ástin sem hann fórnaði fyrir handritin og Jón Hreggviðsson, kotbóndinn sem flæktist frá dýflissunni hér á Bessastöðum til Kaupmannahafnar þar sem nafni hans kenndur við Grindavík átti enga köllun æðri en að annast handritin og svo að fá fréttir af furðudýrum, göldrum og huldufólki á Íslandi. 

Þessi flétta skáldskapar og sögunnar er okkur Íslendingum svo heilög og sönn að sjálfsagt þótti við opnun Þjóðleikhússins fyrir meir en sextíu árum að sýning á Íslandsklukkunni væri þar meðal höfuðverka og persóna morgundagsins gengi fram á sviðið ásamt öðrum, mótuð af penna skáldsins. 

Hver veit nema andi þess galdurs sé líka á kreiki hér í kvöld enda koma Bessastaðir margvíslega við þá sögu,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert