Reynt að semja um makrílinn

Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands.
Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands.

Viðræður hófust í morgun um mögulega lausn á makríldeilunni í Cork-sýslu á Írlandi en þær munu standa fram eftir vikunni. Fundinn sitja fyrir Íslands hönd Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður, og Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Haft var eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegsráðherra, í Morgunblaðinu um helgina eftir fund hans með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, að þau hefðu verið sammála um að tækifæri væri fyrir hendi til þess að ná samningum um makrílinn. Þá sagði hann þau einnig sammála um að ekki mætti búast við of miklu af makrílfundinum á Írlandi. Meiri vinna væri eftir.

Haft er eftir Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, á írska fréttavefnum Afloat.ie í dag að þó hann hafi aldrei sætt sig við „óábyrga hegðun“ Íslendinga og Færeyinga þá vilji hann eftir sem áður ná samkomulagi í deilunni í þessari viku. Þó ekki sama hvað það kosti. Íslendingar og Færeyingar eigi rétt á sanngjörnum hlut af makrílkvótanum en mögulegt samkomulag verði einnig að tryggja hagsmuni ríkja Evrópusambandsins.

Coveney segist búast við erfiðum viðræðum en fundinn sitja fulltrúar Íslands, Noregs, Evrópusambandsins og Færeyja en Rússar og Grænlendingar eiga þar áheyrnarfulltrúa.

mbl.is