70 þúsund tonn af síld í Kolgrafafirði

Frá Kolgrafafirði í dag.
Frá Kolgrafafirði í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Samkvæmt mælingum Hafrannsóknarstofnunar sem voru gerðar fyrr í dag eru nú um 70 þúsund tonn af síld innan brúar í Kolgrafafirði. Enn eru aðgerðir ekki hafnar í firðinum en stefnt var að því að hefja þær um tvöleytið. Notaðir verða tundurþræðir og reynt að smala síldinni út úr firðinum. 

Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að mælitæki til að mæla súrefni séu nýlega komin í fjörðinn og því hægt að fylgjast með magni þess. Í byrjun þessarar viku hafi verið ljóst að súrefnismagnið í firðinum fór lækkandi. „Þetta súrefnismagn steig svo þegar veður versnaði og vindhraði jókst en svo virðist sem flæði súrefnis í fjörðinn sé háð áhrifum veðurs. Dregin var sú ályktun af þessu að mikil síld sem þarf mikið súrefni væri í firðinum innan brúar. Við óhagstæð veðurskilyrði,  þ.e.a.s. staðviðri, er því veruleg hætta á síldardauða og mögulega gæti slíkt gerst mjög hratt. Með hliðsjón af framangreindu var ákveðið að fresta ekki aðgerðum heldur gera strax tilraun strax til að koma síldinni út úr firðinum.“

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson tekur fram í fréttinni að honum sé ljóst að nokkur áhætta fylgi þessari aðgerð þó fyllstu varúðar sé gætt en það sé hans mat að áhættan af því að aðhafast ekki sé mun meiri og það sé ekki réttlætanlegt í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert