Veður tefur fælingaraðgerðir

Við brúnna yfir Kolgrafafjörð.
Við brúnna yfir Kolgrafafjörð. mbl.is/Árni Sæberg

Slæmt veður tefur áframhaldandi fælingaraðgerðir í Kolgrafafirði. Veðurskilyrði í gær gerðu mönnum erfitt fyrir og ekki tókst að smala allri þeirri síld sem stefnt var að. Áfram er spáð slæmu veðri og verður því staðan endurmetin eftir helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Mikill vindur og úrkoma tafði fyrir aðgerðum í gær og er ekki útlit fyrir að hægt verði að halda aðgerðum áfram sé mið tekið af veðurspá og sjávarföllum næstu daga. Á hinn bóginn er veðurspáin jákvæð með tilliti til súrefnismettunar fjarðarins og er ekki talin hætta á að hún falli niður fyrir hættumörk á meðan vindasamt er.

Stefnt er að því að endurmeta stöðuna eftir helgi með tilliti til framhald aðgerða og annarra möguleika á að bregðast við síldarkomunni í Kolgrafafirði. Mun viðbúnaður miðast við að hægt verði að halda aðgerðum áfram með tiltölulega stuttum fyrirvara um leið og hugað er að lausnum til lengri tíma.

Fælingaraðgerðir með hvellhettum í Kolgrafafirði hafa sýnt að slíkar aðgerðir séu árangursríkar í því skyni að smala síld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert