Mikill kraftur í Íslendingum

Haraldur Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins, ræðir við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra …
Haraldur Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins, ræðir við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er til staðar mikill kraftur í Íslendingum og vilji til að framkvæma. Fólk hafi hins vegar ekki fengið nægilegan hvata frá stjórnvöldum til þess. Markmið ríkisstjórnarinnar væri að breyta því, þannig að þeir sem vildu byggja upp gætu fengið stuðning. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs í hringborðsumræðum Morgunblaðsins. 

Sigmundur sagði mikilvægt að stjórnvöld huguðu að innviðunum á hverjum stað, þannig að fólk teldi sér fært að leggjast í framkvæmdir þar. Ef t.d. heilbrigðisþjónusta væri í óvissu úti á landi fældi það fjárfestingu frá.

Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, sagði að eitt af áhyggjuefnunum sem komið hefðu fram í hringferð Morgunblaðsins væri að atvinnulífið úti á landi væri of einhæft. Sigmundur Davíð tók undir það og sagði mikilvægt að efla grundvöllinn þannig að jákvæð keðjuverkun ætti sér stað. Stjórnvöld þyrftu að geta ýtt undir þá keðjuverkun. 

Eitt af því sem Sigmundur Davíð nefndi var að til dæmis mætti skoða hvort  opinber störf mættu dreifast meira um landið en nú væri. 

Á hinn veginn kæmi að þegar skorið væri of mikið niður á landsbyggðinni, eins og t.d. í heilbrigðisþjónustu hefði það í för með sér neikvæða keðjuverkun sem sporna þyrfti við, þar sem t.d. annar aðili í hjónabandi missti vinnuna sem leiddi til þess að báðir aðilar flyttu á höfuðborgarsvæðið. 

mbl.is