Hrinda 4-5 stórum árásum á mánuði

Vodafone í Skútuvogi
Vodafone í Skútuvogi Ómar Óskarsson

„Varðandi þessar árásir þá eru stöðugar þreifingar á vefnum okkar og við erum að hrinda fjórum til fimm stórum árásum á mánuði. Það er umfangið,“ segir Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone á Íslandi. Hann segir að í fyrri tilvikum hafi tölvuþrjótar ekki komist í nein gögn og hugsanlega hafi það veitt fyrirtækinu falskt öryggi hversu litlu þeir áorkuðu.

Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld sagði að tölvuþrjótar hefðu ráðist á vefsíðu Vodafone í þrígang undanfarin tvö ár. Rætt var við forritara sem furðaði sig á því að stjórnendur Vodafone hefðu ekki tekið á öryggismálum vefsíðu fyrirtækisins í kjölfar fyrri árásanna tveggja.

Hrannar segir alla hafa rétt á sinni skoðun. Hins vegar sé þetta mikil óværa og það sýni sig að sömu einstaklingar ráðast á vefi margra íslenskra fyrirtækja. „Ég held að það sé löngu orðið tímabært að íslensk fyrirtæki vinni að þessu saman, þannig að menn læri hver af öðrum. Það skiptir miklu máli að þessi mál, og þetta mál, verði til þess að bæta öryggi í þessum málaflokki á Íslandi og að fyrirtæki, með milligöngu eða þátttöku hins opinbera, stilli betur strengi sína og deili upplýsingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert