Þjófarnir voru mjög kurteisir

Guðbrandur rekur skartgripaverslun við Laugaveg 48 í Reykjavík.
Guðbrandur rekur skartgripaverslun við Laugaveg 48 í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta eru bara atvinnumenn,“ segir gullsmiður á Laugavegi sem varð ásamt eiginkonu sinni fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að verða fyrir barðinu á skartgripaþjófum í gær. Annar þeirra gat opnað og lokað læstum skáp og stolið armbandi þó hann sneri baki í skápinn. „Það heyrðist ekki múkk.“

Líkt og mbl.is hefur greint frá, þá hafði lögreglan hendur í hári þjófanna á Keflavíkurflugvelli í gær í kjölfar eftirlýsingar og endurheimti þýfið. Um er að ræða 33 ára karlmann og 18 ára stúlku sem eru af erlendu bergi brotin.

Fólkið er nú í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fer með rannsókn málsins. Lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar um gang rannsóknarinnar að svo stöddu.

Guðbrandur J. Jerzoski gullsmiður, sem rekur skartgripaverslun á Laugavegi 48 í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is, að fólkið hafi komið í verslunina um tvöleytið í gær. Þau hafi komið vel fyrir og verið snyrtileg í klæðaburði. 

Guðbrandur var að störfum í bakherbergi verslunarinnar er parið kom inn og það var eiginkona hans sem afgreiddi þau. Engin annar var í versluninni á þessum tíma.

Stóð asnalega við skápinn

Aðspurður segir Guðbrandur ljóst að stúlkan hafi verið notuð sem tálbeita. Hún bað konuna um að sýna sér hringa og á meðan gekk maðurinn um verslunina þar til hann staðnæmdist fyrir framan læstan skáp. Kona Guðbrands sneri baki í manninn er hún var að aðstoða stúlkuna.

„Hann stendur dálítið asnalega við skápinn. Þegar hún [eiginkona Guðbrands] kíkti á hann þá stóð hann alveg kyrr og var að horfa í kringum sig. Henni fannst þetta voðalega skrýtið. Hann var með hendur fyrir aftan bak og stendur fyrir framan þennan skáp. Svo kemur hann fram fyrir og gengur að stelpunni, þá tekur hann upp silfurfesti sem liggur á borðinu og spyr hvað hún kosti; hann segir að hann sé kannski að leita að gjöf handa mömmu sinni. Svo spyr hann stúlkuna hvort hún hafi fundið eitthvað og hún segir að þetta hafi verið fulllítið. Þá segir hann bara takk fyrir og labba út, þau voru mjög kurteis,“ segir Guðbrandur.

Aðspurður segir hann að maðurinn hafi talað lélega ensku en að þau hafi talað spænsku sín á milli, en hann bendir á kona sín tali spænsku. Hún hafi skilið hvað hafi farið fram á milli þeirra, en þau minntust ekki einu orði á það hver væri raunverulegur tilgangur heimsóknarinnar.

Þegar parið hafði yfirgefið verslunina fór konan að athuga hvort einhverju hefði verið stolið. Hún sá að allir hringarnir sem hún hafði sýnt stúlkunni voru á sínum stað. Er hún gekk að skápnum sem maðurinn hafði tekið sér stöðu við kom annað í ljós.

„Armbandið er farið“

Guðbrandur heyrði í konu sinni hrópa í kalltæki sem hann hefur í fyrstu taldi hann að það væri verið að ráðast á hana. „Ég hljóp fram í búð og þá stendur hún þarna titrandi fyrir framan skápinn og segir „armbandið er farið“. Ég bara trúi því ekki og hringi strax í lögregluna,“ segir Guðbrandur og bætir við aðspurður að þeim hafi verið mjög brugðið.

Lögreglumenn mættu í verslunina skömmu síðar til að taka skýrslu og rannsaka vettvanginn. Þeir spurðu hjónin m.a. út í það hvort þau hefðu heyrt smell, en vitað er til þess að atvinnuþjófar noti einhverskonar byssu til að opna læsta skápa. Eiginkona Guðbrands sagðist ekki hafa heyrt neitt.

Þau voru jafnframt spurð hvort maðurinn hefði notað svokallaða fjöður til að opna skápinn, en það er hins vegar talið ólíklegra því flestir þurfi að hafa báðar hendur á verkfærinu til að opna skápa.

Vissi nákvæmlega hvað hann var að gera 

„Hann hefur verið svona flinkur. Og hann lokaði meira að segja skápnum aftur,“ segir Guðbrandur og bendir á að allan tímann hafi maðurinn snúið bakinu í skápinn. 

Þá segist hann vita til þess að fólkið hafi farið í aðrar verslanir, m.a. skartgripaverslanir, í miðborginni í gær. Hann segist hins vegar ekki vita til þess hvort þau hafi stolið fleiri verðmætum. 

„Þessir menn eru ekki neinir bjánar, því hann veit alveg nákvæmlega hvað hann er að taka,“ segir hann ennfremur. Armbandið sem hann stal var úr 18 karata gulli skreytt demöntum. Það er nú í vörslu lögreglunnar.

Parið stal úr skartgripaverslun

Handtekin með þýfi í Leifsstöð

Lýst eftir konu og manni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert