Dæmd fyrir manndráp af gáleysi

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt konu á fimmtugsaldri í 12 mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundið, fyrir manndráp af gáleysi. Konan ók bifreið á Akrafjallsvegi í apríl sl. undir áhrifum áfengis. Bifreið hennar rakst á bíl sem kom úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum að stúlka lést.

Lögreglustjórinn á Akranesi ákærði konuna 29. nóvember sl. Henni var gefin að sök hegningar- og umferðarlagabrot því að hafa um kl. 02:30 aðfararnótt laugardagsins 6. apríl 2013, ekið bifreið austur Akrafjallsveg í Hvalfjarðarsveit, á móts við Gerði, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði allt að 2,7 prómill skv. matsgerð). Hún hafi jafnframt ekið bifreiðinni án aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður og allt að 94 km hraða á klukkustund, yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti þar í árekstri við annan bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður þeirrar bifreiðar lést samstundis af áverkum er hún hlaut við áreksturinn.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að konan hafi afdráttarlaust játað sök.

„Ákærða sýndi af sér stórfellt og vítavert gáleysi með akstri sínum umrætt sinn og olli með honum dauða og verulegu eignatjóni. Við mat á refsingu ákærðu er óhjákvæmilegt að líta til þess, að hún hóf akstur bifreiðar þrátt fyrir að hafa fundið til áfengis áhrifa eins og hún hefur viðurkennt. Brot kærðu beindust að lífi ökumanns annarrar bifreiðar og ollu yfirgripsmiklu tjóni,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá kemur fram, að konan hafi sjálf lýst því við skýrslutöku hjá lögreglu að eftir að dóttir hennar hafði neitað henni um að aka henni til Reykjavíkur tók hún lykla að bifreið sinni og ók áleiðis til Reykjavíkur undir verulegum áfengisáhrifum.

„Ber það vott um styrkan og einbeittan vilja til þess að brjóta gegn ákvæði 3. mgr. 45. gr. áfengislaga nr. 50/1987. Hins vegar játaði ákærða brot sitt skýlaust fyrir dómi og samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærðu ekki áður verið gerð refsing,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá verður konan svipt ökurétti í fjögur ár frá birtingu dómsins. Henni verður janframt gert að greiða sakarkostnað málsins, samtals 1.479.118 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina