„Af hverju ég en ekki þær?“

Ása á minningarathöfn um þá sem hafa látist í umferðarslysum …
Ása á minningarathöfn um þá sem hafa látist í umferðarslysum á Landspítalanum í dag. Af Facebook-síðu Landspítalans

„Ég hugsa um þetta á hverjum degi og þetta mun alltaf vera stór partur af mér. Ég mun aldrei gleyma þessu en maður verður að reyna að læra að lifa með þessu,“ segir Ása Þorsteinsdóttir, sem lenti í alvarlegu bílslysi á Suðurnesjum árið 2010, þegar hún var 17 ára gömul.

Ása sagði frá reynslu sinni við minningarathöfn um þá sem hafa látist í umferðarslysum á Landspítalanum í dag, en tvær bestu vinkonur hennar, Unnur Lilja og Lena Margrét, létu lífið í slysinu. Stúlkurnar voru báðar 18 ára gamlar. Ökumaðurinn, ungur karlmaður, slapp nánast ómeiddur en hann var sá eini sem var í bílbelti.

Er þetta í fyrsta sinn sem Ása talar opinberlega um slysið eftir að hún fór ásamt móður sinni í viðtal við DV árið 2010. „Ég ætlaði í fyrstu ekki að tala þarna en ég held að það hafi verið gott fyrir mig að takast á við þetta,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Óraunveruleg atburðarás

Ása segist lítið muna eftir kvöldinu sem slysið varð, en lýsir atburðarásinni sem óraunverulegri. „Ég hafði farið út að skemmta mér með tveimur bestu vinkonum mínum og þetta átti að vera mjög skemmtilegt kvöld. Við vorum að fagna því að Lena væri komin að heimsækja okkur því hún bjó í Englandi á þessum tíma,“ segir Ása.

„Ég man ekkert eftir það. Ég man ekki eftir að hafa stigið upp í bílinn. Ég man ekki eftir slysinu. Þetta var allt svo óraunverulegt fyrir mér,“ bætir hún við. „En ég veit það að við vorum öll undir áhrifum áfengis. Þar á meðal bílstjórinn.“

Venjulegur dagur breyttist í martröð

Ása slasaðist lífshættulega í slysinu og var haldið sofandi í tæpar tvær vikur. Þegar hún vaknaði þurfti fjölskylda hennar að segja henni frá þeim hræðilegu atburðum sem höfðu átt sér stað.

„Í mínum huga var þetta þannig að við fórum í partí til vinar okkar og svo vaknaði ég tólf dögum seinna og þá var búið að jarða tvær bestu vinkonur mínar,“ segir hún. „Þetta sýnir hvað venjulegur dagur getur verið fljótur að breytast yfir í algjöra martröð.“

Ása segist heppin að vera á lífi, en það sé stór partur af henni sem finnist það rosalega ósanngjarnt. „Ég hef oft hugsað: Af hverju ég en ekki þær?“

Tekur einn dag í einu

Ása segir slysið hafa haft gríðarleg áhrif á líf hennar og enn í dag finni hún fyrir bæði líkamlegum og andlegum afleiðingum þess. „Ég á ennþá í dag erfitt með að einbeita mér og erfitt með að muna ýmsa hluti. Ég þarf til dæmis að leggja mikið á mig í skólanum,“ segir hún. 

„Svo er þetta oft rosalega erfitt andlega. En ég hef ásamt fjölskyldunum þeirra [Unnar Lilju og Lenu Margrétar] lært að lifa með þessu. Þetta er samt eitthvað sem maður sættir sig aldrei við. En ég tek bara einn dag í einu.“

Að lokum segist hún vilja brýna fyrir fólki að fara varlega í umferðinni. „Maður verður að hugsa sig tvisvar um í umferðinni. Það þarf ekki mikið til þess að eitthvað svona hræðilegt komi upp á.“

mbl.is