Skapandi draumaverkefni

Sigmar Vilhjálmsson.
Sigmar Vilhjálmsson. mbl.is/Ómar

Sigmar Vilhjálmsson, Simmi, ræðir um nýjasta verkefni sitt sem er stofnun tveggja sjónvarpsstöðva, en hann segir vera gat á markaðnum. Reynt fjölmiðlafólk hefur verið ráðið til starfa en ungt og óreynt fólk mun einnig fá fjölmörg tækifæri til að láta ljós sitt skína. 

Tvær nýjar sjónvarpsstöðvar, Bravó og Mikligarður, taka fljótlega til starfa. Sigmar Vilhjálmsson er meðal eigenda sjónvarpsstöðvanna. Hann er sennilega betur þekktur sem Simmi, annar helmingurinn af Simma og Jóa, en þeir eru þjóðþekktir fjölmiðlamenn, bæði úr sjónvarpi og útvarpi, og eigendur hinnar vinsælu Hamborgarafabrikku. Simmi er meðal eigenda Konunglega kvikmyndafélagsins og framleiðslufyrirtækisins Stórveldisins, en það er einmitt Konunglega kvikmyndafélagið sem stendur á bak við þessar nýju sjónvarpsstöðvar.

Spurður hvort ekki sé mikil bjartsýni að ætla sér að fara af stað með tvær sjónvarpsstöðvar segir Simmi: „Jú. Einhver gárunginn sagði við mig: Það hefur enginn grætt á því að stofna fjölmiðil á Íslandi og þess vegna ætlar þú að stofna tvo.

Þetta eru tveir mjög ólíkir miðlar og það sem rekur okkur áfram er að það er gat á markaðnum sem hægt er að fylla upp í. Bravó verður tónlistartengdur miðill fyrir ungt fólk, sem mun hugsanlega minna nokkuð á Popp Tíví. Við Jói byrjuðum að vinna saman á Popp Tíví og fengum þar tækifæri sem við hefðum sennilega aldrei fengið hefði sá miðill ekki verið til. Þar hlupum við af okkur hornin og tókum út ákveðinn þroska og fengum að vinna í friði. Popp Tíví var eins konar færiband sem gaf ungu og áhugasömu fólki tækifæri til að láta ljós sitt skína. Svo komu Sveppi og Auddi og Pétur Jóhann. Við fimm vorum of lengi ungu andlitin í sjónvarpi. En síðan kom ferskur andblær á markaðinn með fólki eins og Steinda, Birni Braga og Hraðfréttastrákunum á Mbl sjónvarpi.

Það verður að segjast eins og er að stóru sjónvarpsstöðvarnar hafa verið heldur ragar við að gefa ungu og óreyndu fólki tækifæri. Ungt fólk þarf fyrst að sanna sig áður en það fær tækifæri til að komast þar að. Við erum að mörgu leyti himnasending fyrir þessar stóru sjónvarpsstöðvar því við tökum að okkur tilraunastarfsemina. Ef þáttur á Bravó sannar sig og slær í gegn þá hringir kannski Skjár einn eða Stöð 2 og vill fá þáttinn til sín. Þá segjum við: Gjörið þið svo vel! – og finnum síðan nýja og hæfileikaríka einstaklinga. Við ætlum að vera mjög trúir því markmiði að vera ungir í anda á miðlinum og gefa ungu fólki stöðugt tækifæri og gera tilraunir með því.

Það sem er spennandi við útsendingarnar á Bravó er að þar erum við með nýjan útsendingarbúnað sem er gerður fyrir öll dreifingarform. Notkunin á miðlinum verður miklu meiri í snjalltækjum og fartölvum en í sjónvarpinu sem slíku. Þarna er líka gagnvirkni sem hefur ekki sést áður í sjónvarpsgerð. Við byrjum með marga skemmtilega gagnvirka möguleika sem við munum svo auka jafnt og þétt eftir því sem líður á árið. Hvort sem fólk er með símann eða sjónvarpið getur það tekið beinan þátt í dagskrárgerðinni. Það getur valið hvaða lag verður spilað næst í tónlistarþættinum, það getur hringt inn í sjónvarpsþátt í gegnum skype og komist sem áhorfandi inn í sjónvarpsþáttinn. Við getum boðið áhorfendum að spila spurningaleiki í gegnum facebook og ef sigurvegarinn er úti á landi er hægt að kalla fram facebook-prófílinn hans í útsendingu. Við getum boðið áhorfendum upp á að segja: Þetta var ekki góður þáttur eða: Þetta var góður þáttur, haldið áfram með hann. Gagnvirknin skiptir miklu máli í þessu sjónvarpi og smám saman verður miðillinn í höndum áhorfenda sem ráða ferðinni.“

Nýr og ferskur andblær

Er ungt fólk ekki mikið til hætt að horfa á sjónvarp?

„Ungt fólk er ekki hætt að horfa á skemmtilegt íslenskt dagskrárefni, það er bara of lítið efni við þess hæfi í sjónvarpi og þess vegna sækir það í erlent efni. Við ætlum fyrst og fremst að bjóða ungu fólki upp á skemmtilega dagskrá og bjóða því að horfa á það í þeim tækjum sem því hentar, snjalltækjum, tölvum eða sjónvarpi – þess er valið. Í almennri fjölmiðlun er það sem er næst okkur miklu áhugaverðara en það sem er fjær. Það á við um þennan hóp eins og aðra. Í mínum huga er það þannig að ef við framleiðum efni fyrir þennan hóp þá mun sá hópur sækja í það efni. Við verðum aldrei stærsta sjónvarpsstöðin á Íslandi en við erum ákveðinn valkostur fyrir stóran markhóp sem getur gengið að því vísu að við erum ekki að fjalla um undirheima Íslands, pólitíska ólgu og deilumál. Við munum koma með nýjan og ferskan andblæ inn í sjónvarpsflóruna. Það gerum við með Bravó og Miklagarði.

Á Miklagarði munum við fjalla um vöru og þjónustu. Upplýsingar um málefni eru mjög áberandi í fjölmiðlum, í fréttum ákveða menn til dæmis hvað þeir telja eiga erindi við þjóðina og hvað ekki. Sýn okkar sem stöndum að þessum tveimur sjónvarpsstöðvum er: Vörur og þjónusta eru dægurmál. Ég þekki það sjálfur sem fjölmiðlamaður að dagskrárgerðarmenn eru alltaf að reyna að finna einhverja fleti á því að fjalla um vörur og þjónustu.

Á RÚV er þáttur um bókmenntir, sem örvar sölu á bókum og ýtir undir áhuga á bókmenntum. Það getur skipt höfuðmáli fyrir höfund að fá kynningu og gagnrýni á bók sína í þeim þætti. Er þetta auglýsing? Já. Er hún áhugaverð? Já. Auglýsingar eru upplýsingar. Síðan hefur fólk skoðun á því hvort umfjöllunin um þessa ákveðnu vöru og þjónustu höfðar til þess eða ekki. Mikligarður verður í sama dreifingarformi og Bravó, þar er talað mál, myndmál og vídeómiðlun. Ef menn efast um að það sé framtíð í því ættu þeir að sjá tölurnar sem sýna að aldrei hefur verið meiri notkun á vídeómyndforminu en núna.“

Þú segir að ungt fólk muni sjá um dagskrárefni á Bravó, en hverjir sjá um dagskrána á Miklagarði?

„Það fólk sem við höfum fengið til starfa á Miklagarð er fjölmiðlafólk sem hefur starfað við fjölmiðla í þó nokkuð langan tíma. Þetta fólk á það sameiginlegt að búa yfir mikilvægri reynslu úr fjölmiðlum. Við teljum að það búi enn meira í þessu fólki en það hefur fengið að sýna. Í þessum hópi eru Vignir Freyr Andersen sem hefur stýrt lottóinu í sjónvarpi í fjórtán ár, Svanhildur Þórsteinsdóttir, eða Svansí, sem hefur mikla reynslu í útvarpi en hefur einnig unnið í sjónvarpi og Ólafur Örn, sem var einn af dómurunum í Masterchef, eigandi K-barsins og mun fjalla um mat og vín. Við erum líka stolt af því að hafa innanborðs Guffa, Guðfinn Sigurvinsson, sem var í síðdegisútvarpi Rásar 2, auk fleiri hæfileikaríkra einstaklinga sem ekki er hægt að greina frá á þessari stundu. Því skal svo haldið til haga að kynjahlutföllin verða jöfn á Miklagarði og mörg þessara nafna munu koma skemmtilega á óvart.“

Á eftir að gera draumaþáttinn

Hvernig hefur gengið að fjármagna verkefnið?

„Þegar við fórum af stað með þetta verkefni og leituðum eftir fjármögnun fannst okkur lykilatriði að vera þar með aðila sem hafa eitthvað til málana að leggja. Við vildum ekki sækja í sjóði hjá fjárfestum sem hafa ekki áhuga á fjölmiðlun. Við erum að reyna að gera þetta fyrir eins lítinn pening og hægt er en á móti kemur að verkefni eins og þetta kostar sitt. Allir þeir fjárfestar sem standa á bak við þetta verkefni gera það vegna þess að þeir vilja taka þátt í uppbyggilegu og skemmtilegu verkefni. Skúli Gunnar Sigfússon á Subway er einn þessara fjárfesta og hann er maður sem vill hafa gaman af því sem hann er að gera. Ég sagði við hann að ef hann tapaði peningunum sem hann legði í þennan rekstur gæti hann allavega huggað sig við að hann hefði tekið þátt í skemmtilegu verkefni. Ég hef hins vegar fulla trú á því að hann muni ekki tapa þessum peningum.

Ég er ekki í góðgerðarstarfsemi og ætla ekki að borga með verkefninu. Við erum með stóran og mikilvægan markhóp sem er ungt fólk sem er oft haft með í ráðum þegar kemur að ákvörðunum á heimilinu eins og til dæmis hvernig tölvu eða bíl á að kaupa. Það eru ansi mörg fyrirtæki sem vilja höfða til þessa neytendahóps og fá tækifæri til þess í gegnum þessar nýju sjónvarpsstöðvar.“

Verður þú sýnilegur á skjánum?

„Nei, enda væri það í mótsögn við það sem ætlum að gera. Ég fæ mikið út úr því að gefa ungu fólki sama tækifæri og ég fékk á sínum tíma.“

Saknarðu þess að vera ekki lengur sýnilegur á skjánum?

„Nei, við Jói vorum mjög mikið í fjölmiðlum og sú vinna var mjög krefjandi. Árin í 70 mínútum voru galin. Við vorum að vinna 70 mínútna skemmtiþátt sem var sýndur á hverju virku kvöldi. Ég efast um að margir myndu leggja þetta á sig í dag. Mér finnst samt að ég eigi eftir að gera draumaþáttinn, sem er stærri skemmtiþáttur. Við Jói höfum talað um að einhvern daginn væri gaman að gera slíkan þátt en hvorugur þessara miðla er vettvangur fyrir það.“

Fólk er orðið afar vant því að segja nafnið þitt í tengslum við Jóa. Þið hafið átt farsælt samstarf, bæði í fjölmiðlum og viðskiptum. Kemur Jói að þessu nýja sjónvarpsverkefni?

„Jói er ekki með í þessu fjölmiðlaverkefni. Hann á hins vegar hlut í Stórveldinu og er þar með okkur í því að framleiða efni fyrir aðrar sjónvarpsstöðvar. Þetta nýjasta fjölmiðlaverkefni er sérfélag sem Stórveldið á hlut í. Jói hefur þar enga beina aðkomu.“

En hefur þú enn aðkomu að Hamborgarafabrikkunni?

„Ég er hluthafi og fylgist með því skemmtilega verkefni þótt ég sé ekki á Fabrikkunni dags daglega. Þetta er eins og að eignast annað barn og þriðja barnið; það þýðir ekki að þú hættir að sinna fyrsta barninu. En fókusinn er meiri á verkefnið sem brýnast er að sinna í það og það skiptið og þessa stundina eru það sjónvarpsstöðvarnar tvær. Ég set mesta orku í þær.“

Ekki gróðahugsun

Þið Jói voruð lengi með útvarpsþátt á Bylgjunni þar sem þið grínuðust. Eruð þið mjög lífsglaðir að eðlisfari?

„Við Jói höfum alltaf haft gaman af lífinu. Við vorum með útvarpsþátt á Bylgjunni í fimm ár og þar fengum við ákveðna útrás fyrir sköpunargleðina enda leyfðum við okkur að gera þá hluti sem okkur þóttu skemmtilegir á þeim tíma. Það var mikil leikgleði í því sem við gerðum. Við höfðum þá stefnu í þáttum okkar að minnast ekki á þjóðfélagsmál eða pólitík. Við gerðum grín að sjálfum okkur og því höfðum við leyfi til að gera grín að öðrum. Við vorum ekki rætnir og ekkert sem við sögðum í þáttunum stafaði af annarlegum hvötum. Hvatinn að því að gera grín að einhverjum má aldrei vera sá að maður þolir ekki viðkomandi. Þegar menn eru komnir í þá átt í gríni eiga þeir að hætta og snúa sér að einhverju öðru.“

Þú virðist óhræddur við að takast á við ögrandi verkefni. Hvað er það sem drífur þig áfram?

„Ég er þannig gerður að mér finnst ég þurfa að gera mjög margt áður en ég verð of gamall. Mér finnst mjög mikilvægt að það sem ég geri sé skemmtilegt og kannski má rekja ástæðu þess til hrunsins. Ég var að vinna í Landsbankanum en hætti þar og fór að vinna fyrir í fyrirtæki sem hét Hive sem síðan sameinaðist Sko og Tal var endurreist. Ég vann þar á hrunárunum og eftir hrunið breyttist gildismat mitt. Ég fann að ég var í starfi sem ég hafði enga ánægju af en var verulega vel launað. Ég var að vinna fyrir peningana en ekki ánægjuna. Þetta var ekki það sem ég vildi gera. Ég sagði upp án þess að hafa nokkuð annað í hendi og á tíma þegar konan mín var ófrísk. Ég hugsaði með mér: Þeir fiska sem róa. Upp úr þessu kviknaði hugmyndin að Hamborgarafabrikkunni og eftir það hétum við Jói hvor öðrum því að gera bara það sem við hefðum gaman af. Við erum ekki viðskiptamógúlar eða milljónamæringar eins og ákveðnir miðlar vilja vera láta. Að stofna þessa sjónvarpsstöð kostar peninga en er fyrst og fremst vinna. Gríðarlega mikil vinna en af því að hún er skemmtileg finnur maður ekki eins mikið fyrir álaginu og ef manni leiddist vinnan. Ef maður hefur gaman af því sem maður er að gera verður vinnan ekki erfið.

Ég segi það í fullri alvöru að það er ekki hugsunin um gróða sem rekur mig áfram. Ég veit mætavel að það verður enginn ríkur af því að reka fjölmiðla. Ég tel samt, og er reyndar sannfærður um, að það sé hægt að rekja fjölmiðil réttum megin við strikið. Það er gaman að vinna í fjölmiðlun ef umhverfið er skemmtilegt og skapandi. Ég hef komið að fjölmiðlum frá mörgum hliðum og veit að það er ekki gaman við vinna undir tímapressu að verkefnum sem maður hefur ekki áhuga á. Ég veit jafnvel að það er ákaflega gaman að vinna þegar maður fær að velja viðfangsefnin sjálfur og hefur frelsi til að skapa. Á meðan við sem komum að þessu verkefni getum skapað eitthvað nýtt erum við í skemmtilegu umhverfi sem hentar okkur. Og ef það er hægt að hafa í sig og á í þeirri starfsemi án þess að borga með henni þá er þetta draumaverkefni.“

Félagarnir Simmi og Jói. Jói er ekki með í hinu …
Félagarnir Simmi og Jói. Jói er ekki með í hinu nýja fjölmiðlaverkefni. mbl.is/RAX
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »