Engar forsendur fyrir áframhaldandi leit

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is

Ákveðið hefur verið að hætta leit í bili á Faxaflóa að bát, sem sendi neyðarkall um miðjan dag í gær. Engar forsendur eru fyrir áframhaldandi leit að mati Landhelgisgæslunnar.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið um 12-leytið á hádegi í dag og lenti upp úr klukkan 13. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er búið að fullkanna svæðið sem kemur til greina, án árangurs. Áfram verður þó fylgst með svæðinu og komi nýjar upplýsingar fram verður þessi ákvörðun endurskoðuð.

Verið er að rannsaka hvað er á bak við útkallið og vinnur teymi, þar sem m.a. eru fulltrúar Landhelgisgæslu og lögreglu, að því að rannsaka það. Ekki er útilokað að um gabb hafi verið að ræða.

Ekki hefur verið leitað liðsinnis Landsbjargar í dag við leitina, samkvæmt Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert