Listaverk CCP rís við höfnina

Listaverk Sigurðar Guðmundssonar mun rísa rétt hjá höfuðstöðvum CCP í …
Listaverk Sigurðar Guðmundssonar mun rísa rétt hjá höfuðstöðvum CCP í Vesturbugt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tölvufyrirtækið CCP hyggst reisa útilistaverk eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson á hafnarsvæðinu í tilefni af tíu ára afmæli netleiksins vinsæla EVE Online.

Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir í samtali við mbl.is að listaverkið, sem heitir Heimar í heimi, verði sett upp á hafnarkantinum við Rastargötu í Vesturbugt, rétt hjá höfuðstöðvum fyrirtækisins.

„Við erum auðvitað mjög ánægð að þetta sé komið í höfn. Nú erum við búin að tilkynna það á alþjóðavettvangi að listaverkið muni rísa í Reykjavík og nú þegar hefur það vakið mikla og góða athygli. Það er bara mjög ánægjulegt,“ segir Eldar.

Samspil raun- og sýndarheimsins

Verkið er fimm metrar á hæð og verða nöfn um 500 þúsund áskrifenda leiksins letruð á það. Eldar segir að það sé hluti af listsköpuninni, þar sem verkið heiti Heimar í heimi.

„Þetta er mjög skemmtilegt samspil milli þessa raunheims sem við búum í og þessa sýndarheims, sem er EVE heimurinn. Milljónir manna hafa tengst heiminum síðustu tíu ár og hundruðir þúsunda um allan heim spila leikinn í dag,“ útskýrir hann.

„Síðan er þá komin ástæða fyrir þá sem hafa einhvern tímann spilað EVE leikinn, eða spila hann í dag, að koma til Reykjavíkur og sjá verkið.“

Ferlið tók sinn tíma

Reykjavíkurborg hafnaði fyrstu hugmynd listamannsins að listaverkinu. Það var sex metrar á hæð, gul bronsmynd af konu að leika á fiðlu fyrir framan turn sem einnig var úr bronsi. Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sagði í umsögn sinni um verkið að það hefði engin tengsl við sögu svæðisins og náttúruleg einkenni þess.

Listamaðurinn kom þá með nýja hugmynd sem nefndist Heimar í heimi. Hafþór var ánægður með þá hugmynd og hvatti borgaryfirvöld til að finna verkinu varanlegan stað við höfnina.

Menningar- og ferðamálanefnd Reykjavíkurborgar lýsti ánægju sinni með verkið og vísaði umhverfis- og skipulagsráð því til umsagnar hjá skipulagsfulltrúa borgarinnar.

Hann gaf grænt ljós á það og lagði til að það fengi að standa í tvö ár, eða til 1. maí árið 2016.

- Hvað tekur við eftir það?

„Við vitum það í rauninni ekki,“ segir Eldar. „Það er talað um að það verði í að minnsta kosti tvö ár á þessum stað. Hvort það verður eitthvað lengur þar eða að fundinn verði annar staður í borginni, það verður bara að fá að koma í ljós. Það er ekki í okkar höndum, þannig séð,“ segir hann.

Til stendur að afhjúpa listaverkið 30. apríl næstkomandi, daginn áður en hin árlega EVE Fanfest hátíð CCP hefst.

Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP.
Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP.
mbl.is

Bloggað um fréttina