Lögreglan rannsakar mögulegt gabb

Umfangsmikil leit hófst á Faxaflóa í kjölfar neyðarkallsins. Myndin er …
Umfangsmikil leit hófst á Faxaflóa í kjölfar neyðarkallsins. Myndin er úr safni. mbl.is/Guðni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort neyðarkall á Faxaflóa, sem barst á neyðarrás sl. sunnudag, hafi mögulega verið gabb. Umfangsmikil leit hófst í kjölfar kallsins en henni var formlega hætt á mánudag. Lögreglan segir að fáar vísbendingar hafi borist en málið er unnið í samvinnu við Landhelgisgæsluna.

Líkt og fram hefur komið, getur það varðað við almenn hegningarlög hafi um gabb verið að ræða. 

Kemur til greina að birta upptökuna

Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur stýrt leit og björgun, segir að samhliða björgunaraðgerðum hafi lögreglan hafið rannsókn. 

Eins og staðan sé, hafi lögreglan úr litlu að moða og fáar vísbendingar hafi borist í tengslum við málið.

Aðspurður segist Ágúst ekki útiloka það að lögreglan myndi birta upptökuna af neyðarkallinu opinberlega. Ágúst tekur hins vegar skýrt fram að engin slík ákvörðun hafi verið tekin. „Það þarf að skoða það gagnvart öllum heimildum og kerfum; að það sé heimilt eða ekki heimilt,“ segir Ágúst. 

Hann segir að rannsókn málsins standi yfir þar til önnur ákvörðun verði tekin. Þangað til þiggur lögreglan allar vísbendingar sem menn kunni að hafa undir höndum, en hægt er að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is.

Atburðurinn mun ekki breyta verklagsreglum Gæslunnar

Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs LHG, sagði í samtali við Morgunblaðið á þriðjudag, að ekkert benti til þess að skipsskaði hefði orðið á Faxaflóa á sunnudag. Neyðarkall sem sent hefði verið úr talstöð gaf til kynna að mikill leki hefði komið að báti og að menn væru að fara í björgunargalla. Mikil leit hófst í kjölfarið á sjó, úr lofti og á landi.

Í samtali við mbl.is segir Ásgrímur, þegar hann er spurður um það hvernig tæki menn þurfi til að komast inn á rás 16 til að kalla eftir aðstoð, að það sé venjuleg VHF-talstöð sem sé meðal annars að finna í bílum.

„Hugmyndin með þessu er að það geti allir hlustað á rásina og brugðist við ef kallað er eftir aðstoð. Við treystum á skynsemi fólks að nota hana aðeins í þessum tilgangi.“ Þá sé skylda að hafa opið fyrir hana í sjóförum.

Spurður hvort það sé einsdæmi að rásin sé misnotuð með þessum hætti segir Ásgrímur: „Hjá Gæslunni eru starfsmenn sem unnið hafa hér í áratugi og það man enginn eftir svona gabbi á rás 16.“

Þá tekur Ásgrímur fram, að þessi atburður verði ekki til þess að verklagsreglum verði breytt eða þær skoðaðar. 

„Við bregðumst alltaf eins við. Það er febrúar og það skellur á mikið myrkur. Sjórinn er mjög kaldur og eins loftið. Ef menn fara í sjóinn þá munar um hverja mínútu og við getum ekki horft í annað en að setja allan viðbúnað í gang. Við svona neyðarkall, þar sem mannslíf er í húfi, þá er kallað í alla sem vettlingi geta valdið,“ segir Ásgrímur að lokum.

Lögreglan segir allar vísbendingar vel þegnar.
Lögreglan segir allar vísbendingar vel þegnar. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert