Alin upp sem femínisti

Hildur Lilliendahl
Hildur Lilliendahl Ómar Óskarsson

Nafn Hildar Lilliendahl Viggósdóttur varð skyndilega þekkt í ársbyrjun 2012 þegar hún birti hið umdeilda myndaalbúm Karlar sem hata konur. Athyglin kom henni í opna skjöldu og henni finnst ennþá erfitt að vera umtöluð. Hún hefur fengið líflátshótanir vegna skrifa sinna á netinu en fáir þekkja konuna á bak við skrifin. Hildur er alin upp í Breiðholtinu og varð móðir aðeins 19 ára eftir aðra meðgöngu sína, en 17 ára fæddi hún andvana barn. Hún starfar sem verkefnastjóri á skrifstofu borgarstjórnar og hefur umsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga fyrir hönd Reykjavíkur. 

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir segist ekki muna til þess að hún hafi sem barn eða unglingur haft mótaða hugmynd um hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. „Ég held þó að ég hafi alltaf séð fyrir mér að ég myndi skrifa. Það hefði getað verið skáldskapur, akademía eða blaðamennska en ég held að skrif hafi verið það sem mér datt helst í hug. Ef einhver hefði sagt mér þá að ég yrði í eldlínunni í einhverri kvennabaráttu hefði það ekki komið mér nokkurn skapaðan hlut á óvart. Það er nokkuð sem ég hef alltaf verið meðvituð um. En ég hef líka alltaf verið óhrædd við að takast á við ríkjandi viðhorf í kringum mig. Alltaf verið óhrædd við að skora á hólm hugmyndir sem eru kannski viðteknar en ég kaupi ekki.“

Hildur er alin upp í Bökkunum í Breiðholtinu í Reykjavík en gekk í Langholtsskóla. Ástæðan var sú að sem barn var hún á dagheimili á vegum Ríkisspítalanna í nágrenni við Klepp þar sem móðir hennar starfaði á þeim tíma. Stærstur hluti krakkanna fór í skóla í því hverfi, Langholtsskóla, og hún fylgdi hópnum þangað þrátt fyrir að búa áfram í Bakkahverfinu.

„Ég átti eiginlega tvöfalt félagslíf á unglingsárunum. Stundum hékk ég úti í sjoppu eða á einhverjum róluvelli í Bökkunum og stundum fór ég í strætó í mitt skólahverfi á kvöldin ef eitthvað var að gerast þar. Hildur fæddist árið 1981. Hún á tvö eldri systkini samfeðra sem eru tíu og tólf árum eldri en hún og einn albróður sem er þremur árum yngri. Að loknu skyldunámi lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þar kynntist Hildur barnsföður sínum. „Við byrjuðum saman þegar ég var sautján og ég varð strax ólétt. Eftir hálfa meðgöngu missti ég barnið. Það hafði mikil áhrif á mig og ég hægði verulega á náminu í kjölfarið.“ Hildur fæddi barnið, lítinn dreng, andvana eftir 20 vikna meðgöngu. „Lífið eiginlega bara stoppaði og ég stóð varla upp í nokkra mánuði. Ég varð aftur ófrísk 18 ára og þá fékk ég einhvern hvata til að halda áfram. Ég fór aftur í skólann og fæddi son minn Sævar í ágúst árið 2000 þegar ég er rétt orðin 19 ára. Svo kláraði ég FB með fæðingarorlofi og svona í rólegheitum. Ætli ég hafi ekki verið 22 ára þegar ég útskrifaðist.“

Brjálæðislega gaman í vinnunni

Sambandið við barnsföðurinn slitnaði stuttu fyrir útskrift og Hildur hóf nám við Háskóla Íslands sem einstætt foreldri. Hún tók þar íslensku með kynjafræði sem aukagrein, en vantar einhverjar einingar upp á að klára það nám. Eftir að hafa um skeið púslað lífi sínu saman kringum einstaka kúrsa í háskólanum og ýmis hlutastörf, meðal annars við að skúra gólf, þjóna á veitingastöðum og kenna útlendingum íslensku, ákvað hún skömmu fyrir bankahrun að hún þyrfti að finna sér fasta vinnu. Hildur starfar á skrifstofu borgarstjórnar hjá Reykjavíkurborg og hefur gert það frá sumrinu 2008. „Ég er verkefnastjóri og er með puttana í alls konar verkefnum. Stærsta verkefnið mitt er að stýra öllum almennum kosningum sem haldnar eru í Reykjavík. Ég sé um að halda utan um allt það ferli, sem er stærra og umfangsmeira en við sem kjósendur gerum okkur grein fyrir. Það þarf að láta útbúa kjörgögn, skipuleggja talningu, setja upp kjörklefa, koma út kjörskrá, ráða starfsfólk, kaupa mat og svo framvegis. Það er alveg brjálæðislega gaman í vinnunni hjá mér.“ Hildur sér einnig um vefmál skrifstofunnar, er jafnréttisfulltrúi auk þess sem hún aðstoðar kjörna fulltrúa og vinnur náið með formanni borgarráðs. Hildur hefur gengið í gegnum heilmiklar væringar í borgarmálum frá því hún hóf störf en þá var Ólafur F. Magnússon borgarstjóri. Sama ár tók Hanna Birna Kristjánsdóttir við og síðan Jón Gnarr árið 2010.

Hildur er mikil baráttukona og skrif hennar um femínisma og kvenfyrirlitningu hafa vakið athygli, en er hún sjálf pólitísk? „Ég er ekkert flokkspólitísk, ekki hið minnsta. En það er erfitt að ætla sér að vera meðvitaður um óréttlæti án þess að vera pólitískur. Mannréttindabarátta er pólitísk en ég er mjög fráhverf þátttöku í flokkapólitík.“ Hefur verið reynt að fá þig í pólitík? „Já, það kemur alltaf reglulega upp. En það kemur ekki til greina. Ég er líka í þeirri aðstöðu í vinnunni að ég sinni trúnaðarstörfum fyrir kjörna fulltrúa úr öllum flokkum.“

Búin að blogga í tíu ár

Hildur varð ekki femínisti á einni nóttu. „Ég er alin upp sem femínisti. Foreldrar mínir eru femínískt þenkjandi fólk og kenndu mér það fyrsta sem ég lærði í þessum bransa. Þau töluðu opinskátt um verkaskiptingu á heimilinu og ólu mig upp við sögur af kvennafrídeginum. Mamma spilaði fyrir mig Áfram stelpur og fékk tár í augun og með tímanum fór ég líka að fá tár í augun þegar ég hlustaði á þennan glæsilega baráttusöng.“

Hildur segir að þeim sem þekktu hana sem barn og ungling komi sennilega ekki sérstaklega á óvart að hún skuli nú standa í femínískri baráttu. „Í lok 10. bekkjar var gefin út nokkurs konar árbók. Þar skrifuðu vinkonur mínar texta um mig og tóku sérstaklega fram að ég væri „mikil kvenréttindakona“. Þetta var alltaf vitað. Ég byrja að láta skoðanir mínar meira og meira í ljós eftir því sem ég fékk greiðari aðgang að nettengingu. Byrjaði að blogga 2004 eða þar um bil. Þar fékk femínistinn í mér að komast upp á hið opinbera yfirborð,“ segir Hildur. Hún tók einnig virkan þátt í umræðum á póstlista femínista sem var starfræktur um árabil og stundaði spjallborðið á Barnalandi. Skrif hennar náðu svo athygli fjölmiðla og almennings þegar hún bjó til hið margfræga myndaalbúm Karlar sem hata konur í byrjun árs 2012. Viðbrögðin voru blendin, sumir fögnuðu hugrekki hennar en aðrir fordæmdu athæfið.

Gaf sjálfri sér loforð um að halda þetta út

En hvaða viðbrögðum bjóst hún sjálf við á sínum tíma?

„Ég hélt satt að segja ekki að ég fengi nein viðbrögð við þessu. Ég hafði verið að gera litla feminíska gjörninga árum saman fyrir þá 300 vini sem ég átti á Facebook og þessar hræður sem lásu bloggið mitt. Karlar sem hata konur var aldrei hugsað sem neitt stærra en það. Síðan er ég að tína inn í þetta albúm í nokkra daga og allt í einu er komin flennistór frétt á dv.is og þetta varð að risastóru máli. Daginn eftir var ég komin í viðtal í Kastljósið. Allt í einu sáu þetta allir. Það hvarflaði aldrei að mér að neinn myndi taka eftir þessu. Það var bara algjörlega klikkað. Ég var svo hissa á þessu öllu. Hverja mínútu hvers dags var ég bara steinhissa á að þetta væri að gerast. Þetta var ofboðslega mikið álag,“ segir hún.

Síðan, sem setti þetta allt af stað, er ennþá virk og má skoða á vefslóðinni karlarsemhatakonur.tumblr.com.

Hildur segist aldrei hafa sett síðuna upp í þeim tilgangi að vekja athygli á sjálfri sér. „Tilhugsunin um að fólk úti í bæ væri að tala um mig og hafa skoðanir á mér var rosalega erfið. Mér fannst líka mjög erfitt þegar fólk fór að horfa á mig á götunni og í strætó og alls staðar sem ég kom. En um leið og ég áttaði mig á því hversu mikil athyglin var orðin gaf ég sjálfri mér loforð um að ég myndi halda þetta út. Ég myndi taka þá slagi sem mér stæðu til boða á meðan þetta gengi yfir. Meðan þjóðin nennti að tala um þetta. Þá gerði ég ráð fyrir að það yrðu í mesta lagi sjö til tíu dagar, ég mundi ekki í svipinn eftir máli sem íslenska þjóðin hafði nennt að tala um lengur en það.

En nú eru liðin tvö ár og ég er enn að tala um þetta.“

Viðtalið má finna í heild sinni í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Hildur Lilliendahl
Hildur Lilliendahl Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert