Engar Hollywood-stjörnur væntanlegar

The Secret Life of Walter Mitty var tekin upp á …
The Secret Life of Walter Mitty var tekin upp á Íslandi.

Engin erlend stórverkefni eru í hendi fyrir sumarið að sögn forsvarsmanna Saga film, Pegasus og True North. Hins vegar benda þeir á að gjarnan taki umleitanir stuttan tíma og því gæti enn vel farið svo að Íslendingar fái að sjá stórstjörnur sprangandi um Laugaveginn á blíðviðrisdegi.

Skrifað undir um leið og lent er

„Það er slatti í pípunum en ekkert er staðfest. Þetta er mest stórverkefni sem hugsuð eru til lengri tíma og fara ekki í tökur fyrr en næsta sumar ef úr verður,“ segir Árni Björn Helgason, framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá Saga Film.

Þær Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri Pegasusar, og Helga María Reykdal, framkvæmdastjóri True North, taka í svipaðan streng. Segja þær engin erlend stórverkefni í hendi fyrir sumarið en benda á að skjótt skipist veður í lofti og að gjarnan taki kvikmyndaverin skyndiákvarðanir um næsta tökustað. Því geti hlutirnir breyst á svipstundu.

„Yfirleitt er skrifað undir svo til í sömu mund og kvikmyndaverin lenda. Oft er ekkert fast í hendi fyrr en þeir eru lentir. Þetta getur breyst mjög hratt og mönnum getur dottið í hug viku áður en þeir koma að fara frekar til Venesúela svo dæmi sé nefnt,“ segir Árni.

Ekkert ár eins í þessum „bransa“ 

Að sögn Helgu Maríu er misjafnt hversu margar umleitanir frá útlöndum verða að verkefnum á íslenskri grund. Þær geti rokkað frá því að vera frá 10% yfir í 50%. „Á þeim ellefu árum sem við erum búin að vera í þessum bransa, þá er ekkert á eins,“ segir Helga María.

Hún segir áhugann ekki minni í ár og reynslan sýni að hann komi alltaf í bylgjum. Auk þess sem hún bendir á að fyrirvarinn sé gjarnan mjög stuttur.    

„Það var einn aðili sem vildi koma og margt benti til þess að við myndum fá það verkefni til landsins, en svo kom það í ljós í gær að ytri aðstæður hjá honum komi í veg fyrir það því einn leikari var bundinn í öðrum verkefnum,“ segir María Lilja.

Ekki hægt að tjá sig um verkefni 

 Hún vildi ekki tjá sig um hvaða verkefni væri um að ræða en eins og fram hefur komið hefur Ísland komið til greina sem tökustaður fyrir næstu Star Wars-mynd og samkvæmt heimildum mbl.is hefur True North verið tengiliður verkefnisins á Íslandi. 

Lilja Ósk segir að engin stórverkefni séu í hendi. Þrjú verkefni séu á sjóndeildarhringnum og tvö þeirra mjög líkleg. Hún sé hins vegar bundin trúnaði og geti því ekki tjáð sig um þau.  

Vegleg umfjöllun í LA Times  

Ítarleg umfjöllun birtist um Ísland sem tökustað fyrir kvikmyndir í La Times fyrir helgi. Þar er rætt við Einar H. Tómasson sem farið hefur fyrir verkefninu Film in Iceland undanfarinn áratutug en hlutverk þess er að kynna Ísland sem tökustað.

Talað er við Darren Aronofsky og upplifun hans af íslensku landslagi og hvernig hann hafi áttað sig á því um leið að landið hentaði afar vel undir tökur á stórmyndinni Noah.

Segir jafnframt að kvikmyndagerðarfólk í Hollywood líti í enn frekara mæli til Íslands um leið og minnst er á öll þau stórverkefni sem tekin hafa verið upp hér á landi undanfarin ár.

Þegar mbl.is náði tali af Einari H. Tómassyni var hann staddur á Location Trade Show í Los Angeles. LTS er kynningarvettvangur fyrir lönd, borgir og fylki sem vilja laða að kvikmyndatökufólk. Að sögn Einars voru aðilar frá um 100 stöðum staddir í LA til að kynna tökustaði.

„Við erum að berjast um athygli með því að kynna tökustaði og þær ívilnanir sem eru í boði,“ segir Einar.

Ekki að ástæðulausu að skrifað sé um Ísland

Hann segir að meira sé talað um Ísland nú en áður. „Það hafa komið góð verkefni til Íslands sem hafa hækkað okkar „prófíl“. Menn eru afskaplega ánægðir með þjónustufyrirtækin og starfsfólkið sem vinnur verkin. Eins er fólk ánægt með það hversu vinalegt og gott fólk býr á Íslandi,“ segir Einar.

Film in Iceland-verkefnið fellur undir Íslandsstofu. Að sögn Einars skiptir umfjöllun á borð við þá sem birtist í LA times miklu máli.

„Það er ekki að ástæðulausu sem LA Times skrifar um Ísland. Það er ekki svo mikið af stórum kvikmyndaverkefnum sem eru tekin upp í Hollywood. Þau eru að fara til Íslands, Atlanta í Georgíu, Nýju-Mexíkó og Louisiana. Það vekur því athygli þeirra að verkefnin séu „skotin“ annars staðar en í LA. Menn spyrja sig því hvað þeir séu að gera rangt. Ísland er ekki í beinni samkeppni við LA sem tökustaður, en það vekur athygli að svo mörg verkefni séu að fara til Íslands, þess vegna vildi ritstjórnin spjalla við mig,“ segir Einar.

Tom Cruise við tökur á Oblivion á Íslandi..
Tom Cruise við tökur á Oblivion á Íslandi.. mbl.is
Game of Thrones þáttaröðin er að hluta tekin upp á …
Game of Thrones þáttaröðin er að hluta tekin upp á Íslandi
Jennifer Connelly og Russell Crowe fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni …
Jennifer Connelly og Russell Crowe fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni Noah sem nýlega var byrjað að sýna hér á landi. AFP
Chris Hemsworth í hlutverki þrumguðsins Þórs. Framhaldsmynd var tekin upp …
Chris Hemsworth í hlutverki þrumguðsins Þórs. Framhaldsmynd var tekin upp á Íslandi.
mbl.is