Íslendingar fá ekki fleiri jólatré

Ljósin tendruð á Óslóartrénu á Austurvelli á aðventunni 2013, hugsanlega …
Ljósin tendruð á Óslóartrénu á Austurvelli á aðventunni 2013, hugsanlega í síðasta sinn. mbl.is/Styrmir Kári

Reykvíkingar fá hugsanlega ekki fleiri jólatré að gjöf frá vinaborginni Ósló, eins og tíðkast hefur í 63 ár. Það er ekki vegna sárinda yfir að Óslóartréð hafi verið brennt á báli 2009, heldur telja Norðmenn þetta of dýra, flókna og óumhverfisvæna framkvæmd.

Frá þessu segir á Óslóarsíðum Aftenposten þar sem kemur fram að sama muni einnig gilda um Rotterdam í Hollandi, sem einnig hefur fengið jólatré að gjöf frá Ósló.

Í áratugi hefur verið fastur liður á aðventunni að tendra ljósin á jólatrénu frá Austurvelli með hátíðlegum söng en nú sér fyrir endann á því.

„Þetta hefur verið ótrúlega notaleg hefð, að senda jólatré bæði til Reykjavíkur, Rotterdam og London, en nú er þetta farið að verað ansi flókið og óásættanlega dýrt, sérstaklega að senda til Rotterdam og Reykjavíkur,“ segir Fabian Stang, borgarstjóri Ósló. 

Bent er á að ekki aðeins þurfi grenitrén að fara í gegnum skoðun til að tryggja að þau beri ekki með sér sýkingar, heldur séu ferðaleggirnir margir áður en þau koma á leiðarenda. Tréð sem endar á Austurvelli þarf t.d. fyrst að fara með vörubíl til Fredrikstad áður en það er flutt sjóleiðina til Íslands.

Á misskilningi byggt segir Eimskip

Eimskip hefur frá upphafi annast flutning Óslóartrésins, Reykvíkingum að kostnaðarlausu. Nú er því haldið fram að Eimskip ætli að byrja að rukka fyrir flutninginn. Ólafur William Hand segir í samtali við mbl.is að þetta sé rangt og á misskilningi byggt.

„Í fyrra kom upp misskilningur um hver það væri sem bæri ábyrgð á flutningnum og fyrir mistök fékk Reykjavíkurborg reikning, sem var bakfærður um leið og við áttuðum okkur á misskilningnum,“segir Ólafur.

„Eimskipafélagið hefur gert þetta í 60 ár og verið stolt af því án þess að auglýsa það neitt sérstaklega. Það stendur ekki til að hætta því og ég vona að Óslóarborg haldi áfram því börn í Reykjavík njóta þessarar fallegu gjafar.“

Íslendingar geta ræktað sín eigin jólatré

Fleira kemur þó til, því í ályktun borgarráðs Ósló segir að það orki tvímælis að höggva niður jólatré í Noregi til að setja upp annars staðar í Norður-Evrópu, það sé ekki umhverfisvænt að flytja grenitré svo langar vegalengdir.

Þá er bent á að Íslendingar hafi í áratugi lagt talsvert upp úr skógrækt sem ætti nú að vera farin að skila sér í nógu stórum trjám til að nýta sem jólatré.

Óslóarborg muni spara sér 180.000 NOK með þessu, rúmar 3,4 milljónir íslenskra króna. Fram kemur að Fabien Stang ætli að ræða við borgarstjóra þessara vinaborga um hvort Ósló geti tekið þátt í jólahaldi þeirra með öðrum hætti.

Óttast ekki vinslit

„Við viljum viðhalda langri og góðri hefð og skoða hvort það sé eitthvað sem við getum lagt að mörkum þegar kveikt er á jólaljósunum þá þeim, til dæmis með flutningi á skemmtiatriðum eða öðru,“ segir Stang.

Aðspurður hvort þetta muni ekki spilla vináttunni milli borganna segist hann ekki halda það. Áfram verður hinsvegar sent grenitré til London.

„Lundúnatréð er stór hluti af sögu Noregs og tákn um vinskap við Breta, sem við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda.“

Ljósin tendruð á Óslóartrénu á Austurvelli
Ljósin tendruð á Óslóartrénu á Austurvelli mbl.is/Styrmir Kári
Tendrun ljósanna á Óslóartrénu er fastur liður í aðventunni hjá …
Tendrun ljósanna á Óslóartrénu er fastur liður í aðventunni hjá mörgum fjölskyldum. mbl.is/Styrmir Kári
Tendrun ljósanna á Óslóartrénu er fastur liður í aðventunni hjá …
Tendrun ljósanna á Óslóartrénu er fastur liður í aðventunni hjá mörgum fjölskyldum. mbl.is/Styrmir Kári
Tendrun ljósanna á Óslóartrénu er fastur liður í aðventunni hjá …
Tendrun ljósanna á Óslóartrénu er fastur liður í aðventunni hjá mörgum fjölskyldum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert