Komu manninum til bjargar

Vatnajökull. Mynd úr safni.
Vatnajökull. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Veiki leiðangursmaðurinn sem hugðist þvera jökulinn frá Snæfelli til Grímsvatna er nú á leiðinni til Egilsstaða en björgunarsveitir á Austurlandi komu að honum á Vatnajökli um klukkan hálf tíu nú í kvöld.

Hann er ekki alvarlega veikur en er þó mjög slappur, að sögn Friðriks Jónasar Friðrikssonar, sem situr í svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi.

Björgunarsveitin Eining á Breiðdalsvík fór umsvifalaust með veika manninn til Egilsstaða, en bíll frá Héraði er einnig á leið með þrjá ferðafélaga þess sjúka til byggða.

Aðstæður eru erfiðar á jökli, en til að mynda komst Björgunarfélagið á Höfn ekki að hópnum í dag sökum erfiðra aðstæðna en sveitin var með lyf fyrir manninn meðferðis, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.

Farið var á jökul frá Héraði, Seyðisfirði, Breiðdalsvík og Höfn, á fimm jeppum og tveimur vélsleðum. Leiðindaveður og -færð er á jökli og nokkur nýfallinn snjór og var því ákveðið að senda bjargir fleiri en eina leið á jökul.

Símasamband var við hópinn og væsti ekki um mennina, enda eru þeir vel búnir og reyndir ferðamenn.

Fjórar björgunarsveitir af Austurlandi hafa tekið þátt í aðgerðinni sem staðið hefur frá klukkan 17 í dag. Sveitir á svæðinu hafa einnig verið úti í ófærðaraðstoð, að því er segir í tilkynningunni, þar sem fjöldi ökumanna hefur lent í erfiðleikum í kvöld á Fjarðarheiði, í Oddskarði, á Háreksstaðarleið, við Biskupsháls og í Bósltaðarhlíðarbrekku.

Frétt mbl.is: Veikur maður á Vatnajökli

mbl.is