Dramatísk ferð endaði skyndilega

Hópurinn við ofurjeppann sem kom þeim til bjargar.
Hópurinn við ofurjeppann sem kom þeim til bjargar. Skjáskot af Cambridge News

Tilraun fatlaðs, bresks, íþróttamanns til að fara þvert yfir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu, endaði með því að björgunarsveitir urðu að koma honum ofan af jökli um miðja nótt. „Herra Vatnajökull, við eigum eftir að klára þetta,“ skrifar Sean Rose á Facebook. Atvikið átti sér stað fyrir rúmri viku. Mbl.is sagði frá björgun mannanna ofan af jöklinum en fjórar björgunarsveitir af Austurlandi tóku þátt í aðgerðinni.

Sean Rose ætlaði fyrstur fatlaðra manna að ná því að fara þvert yfir stærsta jökul Evrópu. Hann er frá St Neots, bæ í Cambridgeskíri á Englandi. Í hópnum voru fjórir, auk Rose þeir Mike Dann, Kieron Jansch, og Max Smith.

Rose lamaðist í skíðaslysi og fór um Vatnajökul á sérhönnuðum sleða. Ferðin hafði gengið mjög vel í þrjá daga en eftir um 50 kílómetra leið veiktist Rose skyndilega. Það var á fimmtudaginn fyrir rúmri viku, segir í frétt Cambridge News þar sem fjallað er ítarlega um leiðangurinn og björgunina.

Fékk yfir 40 stiga hita

Á fimmtudag var tekið að hvessa hressilega á jöklinum og skyggni var orðið mjög lítið. Hópurinn sló því upp tjaldbúðum. 

Á föstudag hafði Rose hrakað mjög mikið. 

Jansch, sem kvikmyndaði leiðangurinn, segir að hann hafi augljóslega verið mjög veikur. Hann var kominn með yfir 40 stiga hita og blóðþrýstingur hans hafði hækkað umtalsvert. „Mike hringdi strax í 112 til að biðja um neyðarbjörgun þegar í stað.“

En vegna veðurs reyndist ómögulegt að koma þyrlu á vettvang. Önnur tilraun til björgunar mistókst einnig er björgunarsveitarmenn reyndu að komast á svæðið á snjósleðum. Þá festust tveir jeppar björgunarsveita í nýföllnum snjónum á jöklinum. 

„Þegar við fengum fréttir af misheppnuðum björgunartilraunum þá urðum við daprir og höfðum áhyggjur af því að Sean yrði að eyða annarri nótt í tjaldinu án lyfja og með hækkandi hita,“ segir Jansch við Cambrigde News.

En kl. 22 á föstudagskvöldið fengu þeir góðar fréttir. Tveir „ofurjeppar“ frá björgunarsveitum á Austurlandi voru í aðeins sex kílómetra fjarlægð.

„Það sem fylgdi í kjölfarið var ein rússíbanareið, þegar ofurjepparnir komu í gegnum snjóinn á jöklinum.“

Snemma á laugardagsmorgunn var Rose kominn á sjúkrahúsið á Neskaupsstað, tveimur sólarhringum eftir að hann veiktist.

Hann fékk sýklalyf og var fljótur að jafna sig. Hins vegar var hann mjög vonsvikinn að hafa ekki lokið við leiðangurinn. 

Frá sjúkrarúminu á Neskaupsstað skrifaði hann á Facebook: „Ég var stoltur að vera hluti af þessu liði, en svona gerðust hlutirnir. Við sáum um hver annan og þeir hugsuðu vel um mig þegar ég þarfnaðist þess mest. Við náðum mörgum markmiðum á svo margan hátt en okkur mistókst að ná áfangastað. Mér líður ekki vel með það svo herra Vatnajökull, við eigum eftir að klára það sem við byrjuðum á.“

Rose og Jansch eru nú komnir aftur til Bretlands. „Við vitum að við ráðum við þessa þrekraun og meira til, og við erum ákveðnir í að koma aftur og ljúka því sem við byrjuðum á,“ segir Jansch við Cambrigde News.

mbl.is

Bloggað um fréttina