Safna fyrir skóla í Úganda

Rosette Nabuuma leiðir starfið í Úganda
Rosette Nabuuma leiðir starfið í Úganda

Félagið Alnæmisbörn hefur fengið styrk frá utanríkisráðuneytinu til að byggja verkmenntaskóla fyrir Candle Light Foundation í Kampala, höfuðborg Úganda. Styrkurinn er að upphæð 10 milljónir króna og er með þeim fyrirvara að félagið leggi fram það sem á vantar. Áætlaður heildarkostnaður verksins er 14,3 milljónir króna.

Félagið stendur nú fyrir söfnun á ýmsum vígstöðvum m.a. með kökubasar í Kringlunni á morgun og leitar til fyrirtækja sem styðja samfélagsverkefni og einstaklinga sem vilja leggja málefninu lið, segir í tilkynningu.

„Candle Light Foundation vinnur að því að efla menntun og að bæta stöðu bágstaddra unglingsstúlkna í Úganda en það er mikilvægur þáttur í að uppræta fátækt. Þau samtök voru stofnuð af Erlu Halldórsdóttur árið 2001 en hún lést árið 2004.

Félagið Alnæmisbörn var stofnað árið 2004 af Erlu, fjölskyldu og vinum hennar og áhugaaðilum hér á landi um slíkt starf. Það hefur síðan þá stutt starf Candle Light Foundation, m.a. með því að greiða skólagjöld fyrir bágstaddar stúlkur í grunn- og framhaldskólum og einnig samskonar starf ABC barnahjálpar í Norður Úganda. Fyrirtækið Reykjavík Geothermal Ltd hefur verið öflugur bakhjarl starfsins í mörg ár.   

Ungar fátækar stúlkur standa höllum fæti í Úganda sem og víða annars staðar í þróunarríkjunum. Þær hafa litla möguleika á menntun, eignast oft börn mjög ungar og er kerfisbundið mismunað. Ungar konur á aldrinum 15 til 24 ára sem búa í Afríku sunnan Sahara eru átta sinnum líklegri en ungir menn til að vera með HIV samkvæmt tölum frá UNAIDS. Að styrkja ungar stúlkur til mennta hefur margvísleg jákvæð áhrif. Stúlkur sem fá menntun eru líklegri til að vera heilbrigðar og koma börnum sínum upp. Þær verða styrkur fyrir fjölskyldu og samfélag og eru líklegri til að krefjast úrbóta og vinna að breytingum til batnaðar,“ segir í tilkynningu.

Candle Light hefur í mörg ár rekið verkmenntaskóla í leiguhúsnæði í Kampala þar sem boðið er upp á styttra verknám í hárgreiðslu, fatasaumi, kertagerð, bakstri, skreytingum og tölvunotkun. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert