Segir Vísi ekki brjóta lög

Vísir hf. ætlar að flytja alla starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur. …
Vísir hf. ætlar að flytja alla starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur. Vinnslur félagsins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík verða lagðar niður. mbl.is/Sigurður Bogi

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Vísis, segir að fyrirtækið hafi ekki - og geti ekki með neinum hætti - komið sér undan því að greiða starfsfólki sínu uppsagnarfrest. „Réttur fólksins er alveg skýr,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

Stéttarfélagið Framsýn á Húsavík telur það vera ólöglegt að Vísir beini þeim starfsmönnum sínum, sem munu verða eftir í bænum, á atvinnuleysisbætur frá og með 1. maí í stað þess að greiða þeim kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest

Eins og fram hefur komið ákvað Vísir að loka starfsstöðvum sínum á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri og færa alla fiskvinnslu sína til Grindavíkur.

Pétur Hafsteinn segir að sextíu manns hafi unnið hjá fyrirtækinu á Húsavík og að fjörutíu þeirra hafi ákveðið að flytja sig um set til Grindavíkur. Fimm starfsmenn starfi síðan við sjálfan flutninginn og því verði fimmtán manns eftir í bænum án vinnu.

Engum hefur verið sagt upp

„Það er líka rangt að um sé að ræða fyrrverandi starfsmenn því það hefur engum verið sagt upp. Við nálgumst málið þannig að þurfa ekki að segja upp fyrr en við getum boðið einhverjum vinnu,“ segir Pétur.

Félagið muni þó ræða við Vinnumálastofnun til þess að fá úr því skorið hvort túlkun þess sé rétt eða ekki. „Við munum hlíta úrskurði Vinnumálastofnunar í einu og öllu. Við viljum hvorki né getum farið á svig við lög eða kjarasamninga.

Í okkar huga er þetta betra fyrir starfsfólkið,“ segir hann.

Pétur Hafsteinn segist vera bjartsýnn á að félagið geti boðið þessum fimmtán starfsmönnum áfram vinnu. „Við erum að vinna að lausnum og erum mun bjartsýnni en áður.“

Frétt mbl.is: Telja gjörning Vísis ólöglegan

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert