Lögreglan nýtir skopskynið á Facebook

„Facebook-löggan
„Facebook-löggan" Þórir Ingvarsson var meðal fyrirlesara á TEDxReykjavík í Hörpu í dag. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær fleiri en 300 skilaboð í gegnum Fésbókar-síðu sína í hverri viku. Þetta eru meðal annars ábendingar um hugsanlega glæpi, spurningar og fleira sem vinir lögreglunnar vilja fá svör við. 

Þetta kom fram í erindi Þóris Ingvarssonar, rannsóknarlögreglumanns, á TEDxReykjavík 2014 í Hörpu í dag. Erindi hans nefndist Social Policing, sem mætti útleggjast sem félagsleg löggæsla.

Ráðstefnan er haldin í fjórða sinn hér á landi í ár en markmið hennar er að ljá góðum hugmyndum vængi. Mælendur á TEDxReykjavík eru áhugaverðir íslenskir hugsuðir, frumkvöðlar, listamenn og annað áhrifafólk í samfélaginu.

Vilja vita hvað lögreglan gerir

Þórir sagði að lögreglan hefði verið áberandi á samfélagsmiðlinum Facebook frá árinu 2010. Rúmlega fimmtíu þúsund manns hafa gerst vinir lögreglunnar í gegnum Facebook og sífellt fleiri fá upplýsingar frá lögreglunni í gegnum samfélagsmiðla sem hún nýtir.

Af hverju vill fólk vingast við lögregluna í gegnum facebook, spurði Þórir. Hann sagði að flestir vissu að lögregla væri ekki aðeins starf, heldur eitthvað sem samfélagið vildi hafa til staðar svo umhverfið sé öruggt.

Margir vilji sjá hvað lögreglan tekur sér fyrir hendur og þá væri gott að nýta skopskyn í gegnum texta og myndir til að koma skilaboðum á framfæri.

Mikilvægt að eiga samtal við almenning

47% þeirra sem höfðu samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári gerðu það í gegnum samfélagsmiðla. Fleiri nota Facebook til að hafa samband við lögregluna en heimasíðu, tölvupóst eða síma. 

„Að hafa þetta samtal við almenning er mjög mikilvægt og það er það sem lögregla snýst um,“ sagði Þórir að lokum.

TEDx er smærri útgáfa af TED þar sem fyrirlesarar víðsvegar úr heiminum flytja stutt og kraftmikil erindi um allt milli heimins og jarðar. TEDx-erindin eru svo birt á rásinni TEDx Talks á YouTube þar sem þau eru öllum aðgengileg.

Heimasíða TEDxReykjavík2014
Fésbókar-síða TEDxReykjavík2014

Frétt mbl.is: Lögreglan kynnir nýtt app

Frá Silfurbergi í Hörpu í dag.
Frá Silfurbergi í Hörpu í dag. mbl.is/Ómar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á rúmlega 50 þúsund vini á Facebook.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á rúmlega 50 þúsund vini á Facebook. Skjáskot af Fésbókar-síðu lögreglunnar
mbl.is