Að ganga um á brotnum fæti

Silja Björk Björnsdóttir vakti athygli á TEDxReykjavík 2014 ráðstefnunni í …
Silja Björk Björnsdóttir vakti athygli á TEDxReykjavík 2014 ráðstefnunni í Hörpu í gær. mbl.is/Ómar

„Það er bjartur sumardagur. Ég sit með lyfjaglasið í annarri og vínflösku í hinni. Fyrir framan mig er opin tölva með sjálfsmorðsbréfi. Ég ætla að fremja sjálfsmorð.“ Á þessa leið hóf Silja Björk Björnsdóttir erindi sitt „The Taboo of Depression“ á TEDxReykjavík ráðstefnunni í Hörpu í gær.

Í erindi sínu, sem vakti mikla athygli ráðstefnugesta, sagði Silja Björk frá reynslu sinni af andlegum veikindum en hún vill að líkamleg og andleg veikindi fái sama vægi í augum fólks.

Ráðstefnan er haldin í fjórða sinn hér á landi í ár en markmið hennar er að ljá góðum hugmyndum vængi. Mælendur á TEDxReykjavík eru áhugaverðir íslenskir hugsuðir, frumkvöðlar, listamenn og annað áhrifafólk í samfélaginu.

Engar „selfies“ frá geðdeildum

Silja Björk velti fyrir sér hvað væri í raun að vera heilbrigður, hvort það væri að vera nógu grannur eða geta hlaupið maraþon. „En hvað ef ég hefði getað hlaupið maraþon en samt verið þunglynd,“ spurði hún.

Hún benti á að margir segðu frá afrekum sínum á Facebook. Sumir væri búnir að losna við gifs eftir að hafa brotið bein, aðrir hefðu hlaupið ákveðna vegalengd þann daginn og svona mætti lengi telja.

„En enginn segir facebook að andleg heilsa manns sé í lagi. Af hverju eru engar „selfies“ frá geðdeildum,“ spurði Silja Björk. „Af hverju er það svo eðlilegt að segja að maður geti lagað brotið mein en ekki brotna sál.“

Gat ekki hringt í lækni

„Fóturinn minn er brotinn og það er mjög sárt. Ég teipa hann saman og held þannig áfram að eyðileggja hann,” sagði Silja Björk. Fólk nemur staðar og segi henni að eitthvað sé að fætinum. Hún neitar og segir að það sé allt í lagi með fótinn.

Silja Björk segist hafa fengið áfram á brotna fætinum í langan tíma. „Ég gat ekki hringt í lækni, fólk má ekki vita að ég get ekki lagað fótinn sjálf. Hljómar þetta ekki fáránlega,” spurði hún.

Silja Björk gerði tilraun til að svipta sig lífi. Hún hringdi í vinkonu sína á ögurstundu og fékk aðstoð á geðdeild í kjölfarið. Hún segist hafa rifið plásturinn af og loksins orðið hamingjusöm, hún hafi upplifað tilfinningu sem hún hélt að væri bara fyrir aðra.

Andleg veikindi eru ekki val

Silja Björk hefur haldið erindi í grunnskólum og deilt reynslu sinni með nemendum. Hún hefur einnig skrifað pistla þar sem hún vekur athygli á því að þunglyndi sé líka sjúkdómur, eins og hver önnur veikindi, og er ákveðin í því að nýta reynslu sína til þess að breyta heiminum.

Í erindi sínu lagði Silja Björk mikla áherslu á að andleg veikindi væru veikindi ekki val og mikilvægt væri að ræða veikindin. „Ég vil lifa í heimi þar er það er enginn munur á því að hringja í lækni og geðlækni,” sagði hún að lokum.

Frétt mbl.is: Lögreglan notar skopskynið á Facebook.

Heimasíða TEDxReykjavík

Facebook-síða TEDxReykjavík 2014

mbl.is

Bloggað um fréttina