Ráðherra færir frá sér hælisleitendur

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir. mbl.is/Eggert

Óháð úrskurðarnefnd kemur til með að úrskurða í kærumálum hælisleitenda í framtíðinni í stað ráðherra. Þetta varð ljóst þegar Alþingi samþykkti fyrir helgi breytingar á lögum um útlendinga. Markmiðið með skipan kærunefndar er meðal annars að mæta gagnrýni á það fyrirkomulag sem ríkt hefur.

Innanríkisráðuneytið endurskoðaði ákvarðanir Útlendingastofnunar en hlaut fyrir það gagnrýni þar sem ráðuneytið geti ekki talist óháður og óhlutdrægur aðili. Hefur sú gagnrýni bæði komið frá innlendum og erlendum fagaðilum. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi tekið undir þá gagnrýni þegar hún lagði frumvarpið fram á Alþingi og sagði þá jafnframt að mikilvægt væri að mannréttindasamtök ættu aðild að nefndinni.

Um skipan kærunefndarinnar segir meðal annars svo í lögunum:

  • Ráðherra skipar kærunefnd útlendingamála til fimm ára í senn.
  • Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Nefndarmenn skulu vera sérfróðir um mál er lög þessi ná til.
  • Formaður nefndarinnar skal hafa starfið að aðalstarfi. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara.

Hinir tveir nefndarmennirnir eru skipaðir til fimm ára í senn. Annar skal tilnefndur af Mannréttindaskrifstofu Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála, einkum hvað varðar dvöl og búsetu útlendinga hér á landi. Hinn skal tilnefndur af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og hafa sérþekkingu á sviði útlendingamála, einkum hvað varðar málefni flóttamanna og rétt til alþjóðlegrar verndar.

Ráðherra sagði meðal annars í framsöguræðu sinni á Alþingi að eitt megin markmiðið með breytingunum væri að stytta þann tíma sem hælisleitendur þurfa að bíða eftir niðurstöðu í máli sínu hér á landi en einnig að lækka kostnað ríkisins við umönnun hælisleitenda sem hlýst af svo löngum biðtíma.

mbl.is