Hross í oss rakar inn stjörnum

Segja má að Hross í oss fari sigurför um erlend …
Segja má að Hross í oss fari sigurför um erlend kvikmyndahús, undir titlinum Of Horses and Men.

Erlendir gagnrýnendur halda hreinlega ekki vatni yfir kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss. Einn virtasti gagnrýnandi breska blaðsins Guardian bættist í hópinn í dag og gefur myndinni 4 stjörnur af 5 mögulegum.

Hross í oss, sem ber heiti Of Horses and Men á ensku, hefur þegar fengið 4 stjörnur af 5 hjá gagnrýnendum Telegraph og Financial Times, eins og mbl.is greindi frá í dag.

Peter Bradshaw, gagnrýnandi Guardian, er sama sinnis. Hann segir myndina virkilega ánægjulega frásögn um hráar tilfinningar í villtri náttúru. Tónlistin eftir Davíð Þór Jónsson sé frábært og myndin í heild algjörlega sér á parti og ólík nokkru öðru.

Á skilið „költ status“

Bradshaw segist hafa leitt hugann að breska leikritinu Equus eftir Peter Schaffer, sem taki einnig á kynþörf mannsins og þráhyggju með hross. „Þessi mynd lætur hinsvegar alvarleika leikritsins og tilraunir þess til að hneyksla virðast sjálfhvert og kjánalegt í samanburði.“

Hann víkur að sjálfsögðu nokkrum orðum að íslenskri náttúru, enda gerist myndin nánast öll utandyra í í „stórkostlegri, villtri víðáttufegurð sem er, í raun, einn samfelldur tökustaður. Ein risastór náttúruleg sviðsmynd.“

Bradshaw segir Benedikt Erlingsson bæði einlægan og rómantískan í nálgun sinni á hrossin. Myndatakan og náin sjónarhorn sem gefin eru á hrossin beri merki um að þar sé fagurkeri við stjórnvölinn.

„Hún er eiginlega eins og þögul mynd - með orðum. Hrossin eru tungumálið sem gera mannfólkini kleift að tjá sig hvert við annað. Þessi mynd á „költ“ statusinn fyllilega skilið,“ segir Bradshaw að lokum.

Sjá dóm Guardian

mbl.is