„Stór sigur fyrir mig“

Gunnar Þorsteinsson ræddi við blaðamenn þegar niðurstaðan lá fyrir í …
Gunnar Þorsteinsson ræddi við blaðamenn þegar niðurstaðan lá fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Þórður

„Þetta er sigur fyrir mig,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, kenndur við Krossinn, eftir að dómur var kveðinn upp í í dag meiðyrðamáli sem hann höfðaði. Dómari dæmdi ákveðin ummæli sem birtust í Pressunni í nóvember 2010 dauð og ómerk en vísaði kröfu Gunnars um miskabætur frá. Samtals fór hann fram á 15 milljónir.

Málið höfðaði Gunn­ar á hend­ur Ástu Sigríði H. Knútsdóttur, Sesselju Engilráð Barðdal, Steingrími Sævari Ólafssyni, fyrr­ver­andi rit­stjóra Press­unn­ar og út­gáfu­fé­lagi Press­unn­ar vegna frétta­flutn­ings af nokkr­um kon­um sem sökuðu Gunn­ar um kyn­ferðis­brot. Gunn­ar krafðist 15 millj­óna króna í skaðabæt­ur, fimm millj­óna frá hverj­um aðila fyr­ir sig, og af­sök­un­ar­beiðni. Sem fyrr segir var kröfu Gunnars um miskabætur vísað frá dómi.

Hann segir að miskabætur í dómsmálum hafi ávallt verið til vansa. „En við þurfum að skoða forsendur og niðurstöður dómsins, ég og minn lögmaður, og sjá hvert framhaldið verður. En þetta er vissulega stór sigur fyrir mig. Stór ummæli eru dæmd ómerk og þar með liggur á ljósu að menn eru að fara með fleipur í mínum málum. Þetta er ekki það eina sem er ómerkt af þeirra málflutningi; ég mun fara yfir það síðar og skýra það mjög vel,“ sagði Gunnar.

Spurður nánar út í miskabæturnar segir Gunnar: „Það var táknrænt í sjálfu sér. Við vitum það vel, í dómsmálum hér á Íslandi falla ekki dómar um svona tölur,“ segir Gunnar.

„Skaði minn er gríðarlega mikill af ábyrgðaleysi þessa fólks, menn hafa vaðið fram á völlinn með tilhæfulausar ásakanir og valdið mér og minni fjölskyldu ómældu tjóni,“ segir Gunnar.

Hann hyggst fara betur yfir málið og því ótímabært að ræða það hvort hann hyggist áfrýja eður ei.

Héraðsdómur ómerkti eftirtalin ummæli:

  • „... gegn þeirri refsiverðu háttsemi sem Gunnar hefur gerst sekur um ...“.
  • „Talskona kvenna veit um 16 fórnarlömb: Vísbendingum rignir inn – Spannar 25 ára tímabil“.
  • „Talskona kvenna sem saka Gunnar Þorsteinsson í Krossinum um kynferðislegt ofbeldi segist vita samtals um 16 fórnarlömb. Í samtali við Pressuna segist hún hafa fengið vísbendingar frá konum sem saka Gunnar um kynferðislegt ofbeldi yfir 25 ára tímabil“.
  • „Í samtali við Pressuna segir Ásta að fyrir utan þær fimm konur sem hún heldur utan um viti hún um 9 aðrar sem saka Gunnar um kynferðisofbeldi“.
  • „Vitni að meintri kynferðislegri áreitni Gunnars...“.

Dómarinn sýknaði Ástu, Sesselju og Steingrím af öðrum kröfum Gunnars um um ómerkingu ummæla í málinu og þá felldi hann málskostnaðinn niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert